Viktor að glíma við meiðsli í olnboga

Viktor Gísli Hallgrímsson verður frá keppni næstu tvær vikurnar.
Viktor Gísli Hallgrímsson verður frá keppni næstu tvær vikurnar. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Viktor Gísli Hallgrímsson, landsliðsmarkvörður í handbolta og leikmaður Nantes í Frakklandi, verður frá keppni næstu tvær vikur vegna meiðsla á olnboga sem hann varð fyrir á æfingu með franska liðinu.

Þetta staðfesti leikmaðurinn í samtali við handbolta.is. Viktor hefur misst af leikjum Nantes gegn Ivry í frönsku 1. deildinni og Pick Szeged frá Ungverjalandi í Meistaradeildinni.

Hann leikur væntanlega ekki gegn norska liðinu Elverum í Meistaradeildinni á fimmtudaginn kemur né gegn Saint-Raphaël í deildinni í Frakklandi á sunnudag.

Þá gæti hann einnig misst af leikjum gegn Celje Lasko frá Slóveníu í Meistaradeildinni og Chartres í deildinni í næstu viku.

Viktor vonast hins vegar til að verða klár í slaginn þegar íslenska landsliðið mætir Ísrael á heimavelli og Eistlandi á útivelli í undankeppni EM um miðjan október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert