Braut rúðu í lögreglubíl

Lögreglustöðin við Hlemm.
Lögreglustöðin við Hlemm. mbl.is/Golli

Ökumaðurinn sem var stöðvaður í Hafnarfirðinum í gærkvöldi var vistaður í fangageymslum lögreglu og eins farþegi í bifreiðinni enda sakaðir um fjölda brota. 

Samkvæmt dagbók lögreglu er maðurinn grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, ítrekaðan akstur bifreiðar sviptur ökuréttindum, eignaspjöll en hann braut rúðu í lögreglubifreiðinni og vörslu fíkniefna. Farþegi í bifreiðinni var handtekinn grunaður um vörslu fíkniefna og var hann einnig vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Um átta í gærkvöldi handtók lögreglan eftirlýstan mann í miðborginni sem er einnig grunaður um vörslu fíkniefna.  Maðurinn var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Lögreglan stöðvaði för bifreiðar í Árbænum síðdegis í gær en ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna. Hann var með börn í bifreiðinni og var málið unnið með barnavernd.

Vista þurfti mann í annarlegu ástandi í fangageymslum lögreglu í nótt eftir að ítrekað var tilkynnt um ástand hans til lögreglu í gærkvöldi. 

Kona var flutt á bráðamóttöku Landspítalans í gærkvöldi eftir að hafa dottið á merktri gönguleið við fellið Lala, skammt frá Hafravatni. Hún var með áverka á öxl samkvæmt dagbók lögreglu. 

Lögreglan fjarlægði skráningarmerki af á annan tug bifreiða í gærkvöldi og nótt þar sem þær höfðu ekki verið færðar til skoðunar á réttum tíma eða voru ótryggðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert