Hola í alfaraleið veldur íbúum áhyggjum

Holan er staðsett í alfaraleið við Suðurhóla 19 í Breiðholti.
Holan er staðsett í alfaraleið við Suðurhóla 19 í Breiðholti. Ljósmynd/Aðsend

Íbúi í Breiðholti lýsti nýlega yfir áhyggjum sínum af framkvæmdum Veitna sem standa nú yfir við Suðurhóla 19. Þar hafi hola verið boruð í jörðina í alfaraleið og hefur holan staðið opin síðan framkvæmdir hófust í ágúst síðastliðnum.

„Þeir settu upp smá girðingu í kringum holuna sem er nú yfirfull af rusli,“ segir íbúinn, sem ekki vill láta nafn síns getið, í samtali við mbl.is.

Hann hafi í tvígang reynt að hafa samband við Veitur til þess að fá að vita hvenær holunni yrðu lokað en ekki fengið nein svör.

Þá hafi hann einnig haft samband við borgaryfirvöld sem lofuðu að gera eitthvað í málinu. Holunni hefur enn ekki verið lokað þegar þessi frétt er skrifuð og stendur hún því enn opin.

Veitur hyggjast bregðast við kvörtuninni

Þarna hafi komið upp bilun í hitaveitu sem gert var við til bráðabirgða, segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, sérfræðingur í samskiptamálum hjá Orkuveitu Reykjavíkur, innt viðbragða.

„Til að ljúka verkinu þarf að fara í nokkuð umfangsmikla hitaveitulokun. Nýta á hana til að klára önnur verk í nágrenninu svo ekki þurfi að fara í slíkar lokanir mörgum sinnum. Verið er að vinna að undirbúningi þeirra.“

Bilunin hafi komið upp í ágúst en vænst er þess að verkinu ljúki á næstu vikum, að sögn Ólafar.

Spurð segir Ólöf girðinguna sem afmarkar holuna vera fullnægjandi frágang. Hún ætti þó að hylja alla holuna.

„Við munum ganga í málið og færa hana þannig að hún nái út fyrir þessa 10-15 cm sem eru malbikslausir utan girðingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert