Lukaku líkt við Ali

Þrír íslenskir varnarmenn reyna að stöðva Romelu Lukaku í leiknum …
Þrír íslenskir varnarmenn reyna að stöðva Romelu Lukaku í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Float like a butterfly, sting like a bee.“ Þessa frægu setningu hnefaleikakappans, Muhammad Ali, má finna í skrifum belgíska blaðsins Het Nieuwsblad í kvöld um leik Íslands og Belgíu. Er setningin á ensku þótt greinin sé að öðru leyti á flæmsku/hollensku. 

Ali sagðist svífa um eins og fiðrildi en stinga eins og geitungur áður en hann mætti George Foreman árið 1974 og eru ummælin með þeim frægustu í íþróttasögunni. 

Blaðið sagði Romelu Lukaku hafa minnt á Ali á Laugardalsvelli í kvöld. Klæddur í hvítt og rotaði  Íslendinga með tveimur höggum. Eitthvað á þessa leið er lýsingin í greininni en Muhammad Ali keppti stærstan hluta ferilsins í hvítum stuttbuxum og var oft í hvítum sloppi þegar hann gekk í hringinn. Blaðið líkir Lukaku ekki við Ali að ástæðulausu því í umfjöllunin er tekið fram að Ali sé ein af helstu íþróttahetjum Lukaku.

Í greininni er einnig sagt að með því að láta skeggið vaxa hafi Lukaku heiðrað LeBron James sem í vikunni varð NBA-meistari með LA Lakers. Segir jafnframt að James og Lakers sé í uppáhaldi hjá Lukaku. 

Í greininni segir enn fremur að Lukaku geti alltaf fundið eitthvað til að drífa sig áfram sama hver andstæðingurinn sé og í kvöld hafi hann verið sá eini í belgíska liðinu sem hafi verið eins og alvöru atvinnumaður í 90 mínútur. 

Hólmar Örn Eyjólfsson fellir Romelu Lukaku í kvöld og Lukaku …
Hólmar Örn Eyjólfsson fellir Romelu Lukaku í kvöld og Lukaku skoraði úr vítaspyrnunni sem dæmd var. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert