Tvöfaldur heimsmeistari handtekinn fyrir framleiðslu barnakláms

Bruno Martini á yfir höfði sér fangelsisvist.
Bruno Martini á yfir höfði sér fangelsisvist. Ljósmynd/Franska handknattleikssambandið

Bruno Martini, fyrrverandi markvörður franska landsliðsins í handbolta og núverandi forseti frönsku deildarinnar, var handtekinn í París í vikunni fyrir kynferðisbrot gegn barni og framleiðslu barnakláms.

Martini, sem varð heimsmeistari með Frakklandi á HM á Íslandi árið 1995 og á heimavelli árið 2001, lokkaði unga drengi til sín með smáforritinu Snapchat, braut á þeim og tók athæfið upp.

Til rannsóknar í tvö ár

Komst upp um Martini þegar 13 ára drengur greindi móður sinni frá samskiptum sínum við leikmanninn fyrrverandi. Bauðst Martini m.a. til að borga leigubíl til að fá drenginn í heimsókn.

Var málið til rannsóknar í tvö ár, áður en lögregluyfirvöld í París komust að því að Martini ætti aðganginn á samfélagsmiðlinum. Var gerð húsleit á heimilum hans í París og Montpellier og tölvugögn gerð upptæk.

Martini játaði brot sín við handtökuna og á yfir höfði sér um fimm ára fangelsisvist.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka