Kína talið hafa brotist inn í tölvukerfi Breta

Talið er að Kínverjar standi á bak við netárásina á …
Talið er að Kínverjar standi á bak við netárásina á breska varnarmálaráðuneytið. AFP

Talið er að kínversk stjórnvöld hafa brotist inn í tölvukerfi breska varnarmálaráðuneytisins.

Samkvæmt umfjöllun fréttastofu Sky News verður þingmönnum breska þingsins tilkynnt um netárásina í dag, þriðjudag, en árásin er sögð hafa beinst að starfsfólki breska hersins.

Bresk stjórnvöld hafa ekki greint opinberlega frá því hvaða ríki standi á bak við netárásina en heimildir Sky News herma að landið sem um ræði sé Kína. 

Gögnum ekki stolið

Er talið að kínversk stjórnvöld hafi gert tvær til þrjár tilraunir til að gera netárásir á starfsfólk hersins og hermenn á eftirlaunum í gegnum launakerfi ráðuneytisins. Eru það helst nöfn og bankaupplýsingar starfsmanna sem tölvuþrjótarnir eru taldir hafa mögulega komist yfir.

Ráðuneytið hefur unnið hörðum höndum að því síðustu þrjá sólarhringana við að rannsaka árásina eftir að hún uppgötvaðist. Hefur rannsókn ekki sýnt fram á að neinum gögnum hafi verið stolið samkvæmt heimildum Sky News.

Hafi viljað múta starfsfólki

Segir ráðuneytið öll laun vera greidd í þessum mánuði þrátt fyrir árásina.

Í samtali við Sky News kvaðst þingmaður breska Íhaldsflokksins og fyrrverandi hermaður, Tobias Ellewood, telja að Kínverjar væru á höttum eftir starfsmönnum sem væru fjárhagslega verr staddir til að fá frá þeim viðkvæmar upplýsingar gegn fé.  

Ráðuneytið kveðst vona að starfsfólk hafi ekki áhyggjur af öryggi sínu í kjölfar árásarinnar og að því verði veitt ráðgjöf og stuðningur vegna atviksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert