Á móti frumvarpi um dómsmál

Langt fréttabann var af skýrslutökum í stóra kókaínmálinu.
Langt fréttabann var af skýrslutökum í stóra kókaínmálinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dómarafélag Íslands hefur lagst gegn lagafrumvarpi um breytingar á lögum um fréttaflutning af dómsmálum sem hefur það að markmiði að gera ákvæði um frásögn af skýrslutökum skýrari.

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, mælti fyrir frumvarpinu fyrr í mánuðinum, en markmið þess er að tryggja aðgengi almennings að umfjöllun um dómsmál. Þá er frumvarpinu ætlað að koma í veg fyrir að hægt sé að stöðva umfjöllun um dómsmál í margar vikur í senn, líkt og gerðist fyrr á árinu þegar fjölmiðlabann stóð yfir um sjö vikna skeið við málsmeðferð stærsta kókaínmáls sem komið hefur upp hér á landi. Dómari ákvað áð fjölmiðlum væri óheimilt að greina frá því sem fram kom við skýrslutökur yfir allt það tímabil sem þær stóðu.

Dómarafélagið segir í umsögninni að til algjörra undantekninga heyri að skýrslur fyrir dómi taki svo langan tíma. Í lagaákvæðinu sé auk þess gert ráð fyrir því að dómari geti veitt undanþágu frá banni við að greina frá skýrslum vitna. Ákvæðinu sé jafnframt ætlað að tryggja að framburður vitnis í dómsmáli mengist ekki af framburði annarra vitna, en varúðarreglur séu til lítils ef vitni geti fylgst með því í gegnum fjölmiðla eða annars konar miðla hvað önnur vitni hafa borið fyrir dómi áður en það gefur skýrslu. Réttaröryggissjónarmið, hagsmunir aðila að dómsmálum og hætta á sakarspjöllum vegi þyngra en þau sjónarmið sem flutningsmenn frumvarpsins tefli fram, segir í umsögninni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert