Gæti þvingað Rússland í vanskil

Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti. AFP/Jim Watson

Joe Biden Bandaríkjaforseti er tilbúinn að þvinga Rússland í fyrstu alþjóðlegu vanskil landsins í rúmlega öld með því að meina stjórnvöldum í Kreml að greiða handhöfum rússneskra skuldabréfa í bandaríkjadölum. 

Undanþága frá refsiaðgerðum hefur gert Rússum kleift að senda greiðslur til lánadrottna sinna, en frá og með næstu viku hefur Hvíta húsið heimildir til þess að láta umrædda undanþágu falla niður. Þetta kemur fram í fréttaskýringu Daily Telegraph.

Ákveði Biden að gera það munu rússnesk stjórnvöld ekki geta komist hjá því að enda í vanskilum á alþjóðlegum skuldum upp á um 20 milljarða bandaríkjadala, og yrði það í fyrsta sinn frá Októberbyltingunni árið 1917. Mögulegt er að Rússland verði þá að úrhraki í heimi alþjóðlegra lána næstu árin, en slíkt gæti haft umtalsverð áhrif á rússneskt hagkerfi. 

Á miðvikudag fullyrti Anton Siluanov, fjármálaráðherra Rússlands, að slík niðurstaða myndi ekki raungerast og að Rússland myndi áfram greiða skuldir sínar með rúblum. 

Tímabundin undanþága var samþykkt af bandarískri skrifstofu eftirlits með erlendum fjárfestingum í lok febrúar, en undanþága gerði Rússlandi kleift að greiða áfram fjárfestum af Vesturlöndum þrátt fyrir umfangsmiklar refsiaðgerðir vegna innrásarinnar í Úkraínu. Undanþágan fellur úr gildi 25. maí, aðeins tveimur dögum áður en rússnesk yfirvöld eiga að greiða nokkrum fjölda erlendra fjárfesta í skuldabréfum. 

Janet Yellen fjármálaráðherra Bandaríkjanna sagði í síðustu viku að Bandaríkin væru að kanna möguleika á að þvinga Rússland í vanskil. 

„Við viljum tryggja það að við skiljum hvaða mögulegar afleiðingar og yfirflæði munu verða af því að láta undanþáguna renna út,“ sagði Yellen. 

Rússland komst naumlega hjá því fyrr í mánuðinum að falla í vanskil með því að ganga á takmarkaðan erlendan gjaldeyrisforða sinn og greiða 650 milljón dollara greiðslur sem fallið höfðu á eindaga vegna tveggja skuldabréfa. Rússland hafði reynt að greiða skuldirnar í rúblum, en því var hafnað af erlendum lánadrottnum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert