Skólastjóri ákærður fyrir fjölda kynferðisbrota

Malka Leifer sést hér í lögreglufylgd.
Malka Leifer sést hér í lögreglufylgd. AFP

Malka Leifer, fyrrum skólastjóri skóla fyrir strangtrúaða gyðinga í Melbourne í Ástralíu, hefur verið ákærð fyrir 70 meint kynferðisbrot gegn börnum í skólanum. Leifer verður leidd fyrir dómstóla 21. október næstkomandi. 

Leifer neitar sök en hún er sökuð um tugi brota, þar á meðal nauðgun og líkamsárás.

Leifer er með tvöfalt ríkisfang, ástralskt og ísraelskt. Hún var framseld til Ástralíu í janúar siðastliðnum. Brotin eiga að hafa átt sér stað á árunum 2004 til 2008. Þá var Leifer skólastjóri ísraelska Addass-skólans í Melbourne. 

Þrjár systur segjast hafa orðið fyrir barðinu á Leifer

Upphaflega stóð Leifer frammi fyrir ákæru fyrir 74 brot en nú er talan komin niður í 70 vegna þess að fjögur meint brot eiga að hafa átt sér stað í Ísrael.

Meintir þolendur Leifer eru þrjár systur sem hafa stigið fram undir nafni. Þær heita Nicole Meyer, Dassi Erlich og Elly Sapper.

Leifer flúði frá Ástralíu til Ísraels árið 2008 eftir að ásakanirnar voru settar fram. Árið 2012 óskuðu áströlsk stjórnvöld þess að Leifer yrði framseld til Ástralíu. Þá ósk sína fengu yfirvöld uppfyllta níu árum síðar, í janúarmánuði síðastliðnum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert