Smit hjá starfsmanni heilsugæslunnar

Smit greindist hjá starfsmanni Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Smit greindist hjá starfsmanni Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Eitt veirusmit hefur greinst hjá starfsmanni skrifstofu Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu og var starfsmaðurinn í sjálfskipaðri sóttkví þegar smitið greindist. Tíu starfsmenn heilsugæslunnar eru nú í sóttkví vegna smita sem þó urðu ekki á skrifstofu heilsugæslunnar, af því er Óskar Reykdalsson, forstjóri heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu staðfestir í samtali við mbl.is.

Starfsmennirnir tíu vinna heiman frá á meðan á sóttkvínni stendur en heilsugæslan hefur gert ýmsar ráðstafanir vegna faraldursins, svo sem hólfaskiptingu milli rýma og almennar smitvarnir.

Biður fólk að hringja fyrir komu

Biður hann þá sem sækja staðinn að hringja áður en farið er inn, en dæmi eru um það að sjúklingum sé vísað út í bíl þegar bið er eftir þjónustu.

„Við stillum þetta svolítið upp frá degi til dags,“ segir Óskar, spurður á hvaða stigi viðbúnaður á vinnustaðnum sé. 

Hann vill beina því til fólks að fara ekki í sýnatöku án þess að hafa verið í nánum kynnum við smitaðan einstakling eða fundið fyrir einkennum.

„Svo er auðvitað heilsuvera.is þar getur fólkið farið inn ef það er með einkenni og pantað sér sýnatökur. En sýnatökur og rannsóknir eru takmörkuð auðlind, svo það er ekki hægt að taka allt landið. Það  hefur aðeins borið á því að fólk sem er einkennalaust og hefur enga tengingu við neinn með smit. Við myndum gjarnan vilja benda fólki á að fara ekki í sýnatöku nema  vísbending sé um smit,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert