Innlent

Sóttu göngu­skíða­menn að Fjalla­baki

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hvorki veður né skyggni voru með besta móti þegar björgunarfólk kom á vettvang.
Hvorki veður né skyggni voru með besta móti þegar björgunarfólk kom á vettvang. Erlingur Gíslason

Björgunarsveitir frá Hellu og Hvolsvelli sóttu tvo gönguskíðamenn að Fjallabaki í dag. Tjald þeirra hafði gefið sig vegna veðurs og voru þeir því orðnir blautir og kaldir.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörg. Þar segir að aðstoðarbeiðni hefði borist frá ferðalöngunum tveimur síðdegis í dag.

„Björgunarsveitir frá Hellu og Hvolsvelli fóru á 4 bílum með vélsleða, en staðsetning ferðalanganna var samkvæmt neyðarkalli þeirra rétt norðan Hnausapolls skammt frá Landmannalaugum. Ferð sveitanna sóttist vel og upp úr klukkan 18 í kvöld fannst fólkið, á þeim stað sem neyðarsendingin gaf upp sem staðsetningu. Þau voru þokkalega á sig komin, en blaut og köld, og voru fegin að komast í hlýjan bíl björgunarsveitar og komast þar í þurr föt,“ segir í tilkynningunni.

Fólkið hafði verið á göngu í 10 daga og var nánast komið á leiðarenda. 

„Þegar björgunarfólk kom á vettvang var veður tekið að versna til muna og skyggni minnka með talsverðri snjókomu. Það var því happ að fólkið hafi ekki dregið að óska hjálpar. Talsverður krapi var á leiðinni inn úr, en ferð bíla gekk áfallalaust.“

Þegar þetta er skrifað er verið að fara með skíðamennina til byggða, nánar til tekið á Hellu þar sem þeir munu komast á hótel.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×