5, 6, 7, 8, 9 og 10 vekja furðu

Óvenjuleg röð lottótalna sem dregnar voru út í suðurafríska lottóinu í gærkvöldi hefur vakið furðu og ásakanir um svindl, eftir að tuttugu miðahafar reyndust hafa allar tölur réttar.

Upp komu nefnilega tölurnar 5, 6, 7, 8 og 9. Og bónustalan, hún var númer 10.

Hver og einn hinna tuttugu fær í sinn hlut 5,7 milljónir randa, eða sem nemur tæplega 48 milljónum króna.

Að auki fá 79 miðahafar til viðbótar 6.283 rönd hver, eða rúmlega 52 þúsund krónur, fyrir að giska á réttar tölur án bónustölunnar.

„Hamingjuóskir til sigurvegaranna tuttugu í lottóinu,“ tísti lottóið seint í gærkvöldi.

Tíðindunum fylgdu ásakanir um að brögð væru í tafli. Hafa einhverjir kallað eftir því að hafin verði rannsókn álíka þeirri sem þegar er í gangi og varðar meinta spillingu fyrrverandi forsetans Jacobs Zuma í embætti.

Lottónefnd landsins, sem sér um regluverk leiksins, segir talnaröðina fordæmalausa og hefur heitið því að málið verði kannað ofan í kjölinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert