Húsnæðisverð heldur áfram að hífa upp verðbólguna sem mældist 4,8% í nóvember á ársgrundvelli sem er hæsta verðbólga frá árinu 2013.

Samsetning verðbólgunnar hefur breyst talsvert undanfarið ár og skýrir húsnæðisliðurinn nú 2,2% af 4,8% verðbólgu. Þetta kemur fram í greiningu Íslandsbanka . Húsnæðisliðurinn hækkaði í takt við væntingar greiningadeildar Íslandsbanka fyrr í mánuðinum.

Fjölbýlisíbúðir á höfuðborgarsvæðinu hækkuðu um 1,4% í verði og leiddu hækkun íbúða milli mánaða. Sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkuðu um 0,8% og íbúðir á landsbyggðinni 0,6%. Sé litið til undanfarna 12 mánaða hefur íbúðaverð á landinu öllu hækkað um 16%, samkvæmt gögnum Hagstofunnar. Hækkun sérbýla á höfuðborgarsvæðinu leiðir hækkun íbúðaverðs á ársgrundvelli.

Hækkandi hrávöruverð hefur áhrif

Að húsnæðisliðnum undanskildum hækkaði liðurinn „ferðir og flutningar“ mest á milli mánaða í nóvember, þó minna en spáð hafði verið. Helsti áhrifavaldur hækkunarinnar var hækkun á bensíni og olíu, en eldsneytisverð hefur hækkað um 20% frá áramótum sem má rekja til hækkunar á heimsmarkaðsverði á eldsneyti. Húsgögn og heimilisbúnaður hækkaði einnig ásamt matar og drykkjarvörum vegna verðhækkana erlendis og aukins flutningskostnaðar, samkvæmt greiningu Íslandsbanka.

Nokkrir liðir lækkuðu milli mánaða, sem dregur til tíðinda, en slíkt hefur verið afar sjaldgæft að undanförnu. Þar á meðal er liðurinn „vörur og þjónusta“, sem lækkaði í fyrsta sinn milli mánaða frá því í maí í fyrra. Greiningadeild Íslandsbanka telur líklegast að undanfarnir útsöludagar skýri lækkunina að einhverju leyti.

Verðbólga án húsnæðis mælist 3,0%, hálfu prósentustigi frá 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands. Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, benti á þetta í tísti fyrr í dag.

Verðbólga nái markmiði árið 2023

Verðbólgumarkmið Seðlabankans mun ekki nást fyrr en í byrjun árs 2023 ef marka má bráðabirgðaspá greiningadeildar Íslandsbanka. Spáð er að verðbólgan verði 5,2% í desembermánuði á þessu ári en lækki svo jafnt og þétt í gegnum næsta ár og nái markmiði í mars árið 2023. Helstu forsendur spánnar eru hóflegar launahækkanir í kjarasamningum næsta árs og að jafnvægi náist á fasteignamarkaði árið 2023. Hannes Steindórsson fasteignasali sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í vikunni að jafnvægi næðist ekki á fasteignamarkaðnum fyrr en eftir 3-5 ár „nema eitthvað óvænt gerist“.