Innlent

Vilja stofna mið­stöð á Reykja­lundi fyrir fólk með eftir­köst eftir Co­vid

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Uppi eru hugmyndir um stofnun miðstöðvar til þess að geta tekið á móti fólki með eftirköst covid á einum stað.
Uppi eru hugmyndir um stofnun miðstöðvar til þess að geta tekið á móti fólki með eftirköst covid á einum stað. Vísir/Vilhelm

Á því eina ári sem kórónuveirufaraldurinn hefur geisað hér á landi hafa meira en sex þúsund manns greinst smitaðir af veirunni. Margir kljást við mikil eftirköst eftir veikindin og hefur Reykjalundur sótt um aukafjármagn hjá Sjúkratryggingum Íslands til þess að geta tekið á móti þessum hópi.

Uppi eru hugmyndir um stofnun miðstöðvar til þess að geta tekið á móti fólki með eftirköst covid á einum stað. Hugmyndirnar hafa verið kynntar í heilbrigðisráðuneytinu og félagsmálaráðuneytinu.

„Með þeim sem eru að ljúka endurhæfingu þessa dagana eru það um 50 manns sem hafa farið í gegn hjá okkur. Milli 60 og 70 bíða nú eftir því að komast í endurhæfingu,“ sagði Hans Jakob Beck, læknir á lungnasviði Reykjalundar, í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Mikilvægt að hópurinn fái eftirfylgni

Hans er einn þeirra sem hefur talað fyrir stofnun miðstöðvar til að taka á móti fólki með eftirköst covid.

„Tillaga okkar og hugmynd er sú að á einum stað sé einhvers konar kjarni sem mun sinna þessu vandamáli. Þar yrði boðið upp á þverfaglegt mat fyrir fólk með tilliti til endurhæfingar og stuðnings. Þar yrði boðið upp á ráðgjöf og eftirfylgni,“ segir Hans.

„Þá sérstaklega með áherslu á hópinn sem ekki hefur komist til vinnu. Við höfum reynslu af því við endurhæfingu þessa fólks að staða þeirra er mjög ólík og endurhæfingin þarf að vera einstaklingsmiðuð. Jafnframt er mikil hætta á því að fólk detti út af vinnumarkaði ef því er ekki fylgt eftir. Þetta er hópur sem þarf eftirfylgni, það er ekki nóg að vera bara í nokkrar vikur í endurhæfingu,“ segir Hans.

Hann segir mikilvægt að sinna þessari þjónustu á einum stað og hann segir allt til alls til þess á Reykjalundi.

„Það er breið þekking, endurhæfing á breiðu sviði og sérþekkingin og aðstaðan með því besta sem gerist hér,“ segir Hans Jakob.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×