fbpx
Fimmtudagur 16.maí 2024
Fréttir

Gera þurfi einelti refsivert og láta foreldra gerenda borga skaðabætur

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 26. október 2020 17:03

Valgarður Reynisson. Mynd: Facebook

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það þarf einhver að taka ábyrgð á þessu. Ef enginn ber ábyrgð á eineltinu og skaðanum sem það veldur þá verður ekki til almennilegur hvati til að gera þær breytingar sem þarf,“ segir Valgarður Reynisson, kennari, doktorsnemi og þolandi eineltis, í viðtali við DV.

Umræða um einelti hefur blossað upp eftir átakanlegt mál Ólívers, ungs drengs sem lagður hefur verið í grimmilegt einelti í Garðabæ. Valgarður segir að lausnirnar á vandanum séu til en þær séu ekki virkjaðar. Meginlausnin sé að gera gerendur og foreldra þeirra ábyrga fyrir ofbeldinu.

„Við þurfum að horfa á einelti eins og annað ofbeldi. Geturðu ímyndað þér viðbrögðin ef lagt til yrði á Alþingi að refsingum fyrir nauðganir og alvarlegar líkamsárásir yrði breytt í viðtal við skólastjóra? Þetta eru brot sem geta haft sambærilegar afleiðingar fyrir lífshlaup þolenda og einelti,“ segir Valgarður og bendir á að ekki þurfi í sjálfu sér gróft ofbeldisbrot í einelti til að það brjóti niður:

„Þetta er svo langvarandi, daglegt áreiti í mörg ár. Við höfum heyrt um pyntingaraðferðir eins og að láta vatnsdropa falla á enni fólks. Það er ekkert vont, það lifir hver maður slíkt af, en gefðu því tíma, vikur, mánuði eða ár, og sjáðu hvað gerist.“

Valgarður telur að ábyrgðin þurfi að liggja annars vegar að liggja hjá opinberum stofnunum en hins vegar hjá foreldrum gerenda. „Í lögum um grunnskóla stendur mjög skýrt að grunnskólar eigi að skapa öruggt umhverfi fyrir alla nemendur. Í mörgum tilvikum er slíkt ekki raunin. Þarna liggur ábyrgðin hjá skólanum, hjá sveitarfélaginu og á endanum hjá ríkinu,“ segir hann og víkur síðan að gerandaábyrgðinni:

„Ef fólk vill fara þá leið sem er algengust, að leysa þetta með einhvers konar samræðum milli foreldra þolenda og foreldra gerenda, þá verður að vera til staðar alvöruhvati fyrir foreldra gerenda til að taka raunverulegan þátt í ferlinu. Eins og staðan er í dag er sá hvati ekki fyrir hendi. Fyrir um tíu árum kynntu meistaranemar niðurstöður rannsóknar sem bendir til þess að fýsilegt gæti verið að beita refsiábyrgð og skaðabótaábyrgð í eineltismálum. Fjölskyldutrygging foreldra gerenda í eineltismálum yrði þá að greiða út bætur, sem til dæmis væri hægt að nota til að gera þolanda kleift að skipta um skóla og flytja í annað hverfi. Lausnirnar eru til, ég er ekki að finna upp hjólið.“

Eineltisáætlanir upp á punt

Blaðamaður minnist mikillar umræðu um einelti fyrir allnokkrum árum sem og tilkomu Olweusar-áætlunarinnar gegn einelti. Hefur hún ekki virkað?

„Þú getur búið til allar þær áætlanir sem þú vilt en ef það er ekki til fjármagn og geta hjá starfsfólki skólans til að fylgja þeim almennilega eftir þá verða þær ekkert meira en punt á heimasíðu skólans.“

Valgarður segir að stefnan skóli án aðgreiningar hafi aukið á vandann: „Einelti hefur alltaf verið til staðar en möguleikar skólasamfélagsins til að takast almennilega á við það eru ekki nægilega miklir, kannski samfara þeim breytingum sem orðið hafa vegna skóla án aðgreiningar. Það er einfaldlega svo gríðarlega mikil þörf á alls konar úrræðum fyrir mikinn fjölda nemenda svo ýmis mál geta týnst í fjöldanum vegna álags.“

Kennarar og skólastjórar skilja ekki alvarleikann

Valgarður birti í dag grein um einelti á Vísir.is og þar segir í upphafi:

„Það er mjög erfitt fyrir kennara og skólastjórnendur, sem ekki hafa upplifað einelti sjálfir, að skilja hversu alvarlegt ofbeldi er um að ræða. Algengast er að einelti sé andlegt, fari t.d. fram með útskúfun, niðurlægingu og háði. Fullorðnir einstaklingar sem reyna að setja sig í spor þolenda gætu ályktað að það sé ekki eitthvað til að kvarta yfir þótt einhver hafi uppnefnt annan nemanda á ganginum. Sumir grípa til þess að útskýra að við höfum öll ákveðna brynju sem ver okkur gegn áreiti. Kannski þurfi nemandinn bara að hætta þessari viðkvæmni. En þótt slíkar útskýringar henti kannski til að ræða ágreining milli jafningja, lýsa þær skilningsleysi á eðli eineltis.“

Valgarður fer síðan yfir það hvernig eineltið brýtur þolandann niður smám saman:

„Einelti er síendurtekið áreiti eða ofbeldi sem dregur þolandann niður yfir lengri tíma. Einhvern tímann hafði hann svipað þol fyrir áreiti og jafnaldrarnir en brynjan hefur verið meitluð af honum. Að vera kallaður „ógeð“ á vinnustað þínum, í skólanum þar sem þú þarft að mæta á hverjum degi, dregur hægt og bítandi úr þolendum allt sjálfstraust og baráttuþrek. Líkt og dropinn holar stein eru þolendur orðnir bæði vanir og viðkvæmari fyrir ofbeldinu en hafa e.t.v. ekki aldur og þroska til að átta sig á hversu óeðlilegt og skemmandi ástandið er. Við það bætist félagsleg útskúfun, eignaspjöll og líkamleg ógn til fjölda ára á því æviskeiði þar sem fólk er hvað viðkvæmast félagslega.

Að senda nemendur með þessa reynslu úr grunnskóla og út í lífið er ógnvænlegt. Því næstu æviskeið, framhaldsnám og atvinnulífið, krefst þess að þessir brotnu einstaklingar standi á eigin fótum, taki skynsamlegar ákvarðanir, hafi sjálfstjórn þegar kemur að vímugjöfum og verði góðir félagar í nánum samböndum. Ef fólk almennt hefði raunverulegan skilning á þessu orsakasamhengi og þeim fórnarkostnaði sem fylgir aðgerðarleysi, væri mun meira gert til þess að stöðva eineltismál þegar þau koma upp.“

Foreldrar verði skaðabótaskyldir

Í greininni minnist Valgarður einnig á skaðabótaskyldu foreldra sem hann ræddi við DV og telur þá leið vera betri en að refsa gerendum beint. Einnig sé vænlegt að gera skóla og sveitarfélög ábyrg:

„Hins vegar er tilhugsunin um að refsa börnum sem ekki hafa náð sakhæfisaldri, t.d. með því að flytja þau í annan skóla eða meðferðarheimili ekki aðlaðandi. En það þarf ekki að refsa gerendum til þess að ná fram þeim jákvæðu áhrifum sem viðurlög við einelti gætu skilað. Að gera foreldra gerenda í eineltismálum skaðabótaskilda vegna ofbeldis ólögráða barna sinna gæti skilað mun betri árangri í þeim tilfellum þar sem skólar reyna að leysa eineltismál með samvinnu heimilis og skóla.

Enn betri árangri gæti skilað að gera skóla/sveitarfélag ábyrgt fyrir því einelti sem nemendur hafa þurft að þola innan veggja stofnunar sem þeim er skylt að sækja. Samkvæmt lögum um grunnskóla hafa allir nemendur rétt á að finna til öryggis og njóta hæfileika sinna. Það er hins vegar almenn vitneskja að í hverjum einasta árgangi og flestöllum skólum landsins eru nemendur sem eru beittir alvarlegu ofbeldi. Ef skólar/sveitarfélög verða gerð ábyrg, t.d. fjárhagslega, fyrir því ofbeldi sem þar viðgengst yrði það mikilvægur hvati til þess að taka eineltismálin traustari tökum.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Stuðningsmenn Njarðvíkur sagðir hafa brotið fjölda sæta á heimavelli Vals – „Íþróttir kalla fram tilfinningar í fólki“

Stuðningsmenn Njarðvíkur sagðir hafa brotið fjölda sæta á heimavelli Vals – „Íþróttir kalla fram tilfinningar í fólki“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Ellefu hljóta myndarlegan styrk upp á 3,5 milljónir króna frá stofnun Leifs Eiríkssonar

Ellefu hljóta myndarlegan styrk upp á 3,5 milljónir króna frá stofnun Leifs Eiríkssonar
Fréttir
Í gær

Atvik sem fór framhjá flestum í gær – Trompaðist gjörsamlega þegar hann var tekinn af velli

Atvik sem fór framhjá flestum í gær – Trompaðist gjörsamlega þegar hann var tekinn af velli
Fréttir
Í gær

169 einstaklingar sem finnast ekki

169 einstaklingar sem finnast ekki