Mismunandi sóttkví eftir mikilvægi starfsmanna

Fjöldi sérfræðinga starfar á spítalanum.
Fjöldi sérfræðinga starfar á spítalanum. mbl.is/Ómar Óskarsson

104 starfsmenn á Landspítala hafa smitast af kórónuveirunni frá upphafi og 1.243 hafa farið í sóttkví af um 6.000 starfsmönnum spítalans. Lætur nærri að um 21% starfsmanna hafi farið í sóttkví einhvern tímann síðan faraldurinn hófst. Starfsmenn sæta ólíkum stigum sóttkvíar sem m.a. fer eftir mikilvægi starfsmanna. 

Einkennalausir mæta í vinnu 

Þannig hefur Landspítalinn sett upp kerfi þar sem sóttkví er tilgreind með ferns konar hætti: 

Sóttkví A starfsmaður er í 14 daga sóttkví líkt og hver annar borgari.

Sóttkví B-1 ef starfsmaður er einkennalaus en vinnuframlag hans er þannig að ekki er hægt að tryggja öryggi sjúklinga án framlags hans.

Sóttkví B-2 ef starfsmaður hefur skilað neikvæðu sýni á landamærunum en á eftir að fara í seinni skimun. Þá er hann kallaður til vinnu. Þessi tegund sóttkvíar á við sérfræðinga og tæknimenn sem koma að utan í sérstök verkefni á Landspítala ef vinnuframlag þeirra telst nauðsynlegt til að tryggja öryggi sjúklinga. 

Sóttkví C kallast það þegar starfsmaður fær leyfi til að vinna hafi hann lokið sóttkví A skv. leiðbeiningum Landlæknis um styttingu á heimasóttkví en þarf að gæta sérstakrar varúðar í vinnu á Landspítala þar til 14 dagar eru liðnir frá mögulegri útsetningu. 

Taka þurfti upp kerfi á LSH þar sem ólík stig …
Taka þurfti upp kerfi á LSH þar sem ólík stig sóttkvíar eru fyrir starfsmenn. Sumir sérfræðingar eru einfaldlega ómissandi að sögn Önnu Sigrúnar Baldursdóttur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heilaskurðlæknar af skornum skammti 

Anna Sigrún Baldursdóttir aðstoðarmaður forstjóra á LSH segir að málin séu einfaldlega þannig að við búum í fámennu landi og sérfræðiþekking í sumum tilfellum af skornum skammti. „Sumt starfsfólk er einfaldlega það mikilvægt að við getum ekki verið án þess. Við búum í fámennu landi og hér eru t.a.m. bara fjórir heilaskurðlæknar. Ef þeir væru allir með Covid og upp kæmi heilablæðing þyrftum við samt að geta sinnt slíku verkefni,“ segir Anna Sigrún. 

Framlínustarfsfólk 

Hún ítrekar þó að gríðarlegar sóttvarnir séu viðhafðar inni á spítalanum og afar ólíklegt að smit berist t.a.m. í sjúklinga. „Ef við getum valið um fólk sem er í sóttkví eða það sem er ekki í sóttkví þá er eðlilega að sá sé valinn sem ekki er í sóttkví. Ef starfsmaður er hins vegar ómissandi þá verðum við einfaldlega að taka hann inn. Þaðan er hugtakið framlínustarfsfólk og nauðsynlegt starfsfólk fengið,“ segir Anna Sigrún.  

Anna Sigrún hefur sjálf farið í sóttkví vegna smits sem kom upp í skrifstofuhúsnæði í  Skaftahlíð en á sama tíma fór m.a. Páll Matthíasson forstjóri einnig í sóttkví.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert