Brasilískur landsliðsmaður opinberar tvíkynhneigð sína

Richarlyson þegar hann var á mála hjá Atlético Mineiro í …
Richarlyson þegar hann var á mála hjá Atlético Mineiro í Brasilíu. Ljósmynd/Atlético Mineiro

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Richarlyson lagði skóna á hilluna á síðasta ári, 38 ára að aldri, eftir farsælan feril í heimalandinu. Í vikunni opinberaði hann það að hann væri tvíkynhneigður.

„Ég hef verið spurður að því hvort ég sé samkynhneigður alla mína ævi. Ég hef átt í sambandi við karlmann og ég hef átt í sambandi við konu sömuleiðis.

En svo tala ég hér í dag og brátt verður fyrirsögnin í blöðunum: „Richarlyson er tvíkynhneigður“ og jarmið (e. meme) er reiðubúið. Fólk mun segja: „Vá, sverðu það? Ég hafði ekki hugmynd“,“ sagði Richarlyson í brasilíska hlaðvarpsþættinum Nos Armarios dos Vestiaros.

Í viðtalinu sagðist hann hafa þungar áhyggjur af stöðu samkynhneigðra og tvíkynhneigðra í Brasilíu þar sem hatursglæpir í garð þess fólks væri með mesta móti þar í landi.

„Skilurðu af hverju ég tel það stundum ekki vera nauðsynlegt að maður flokki sig eða stimpli á einhvern hátt? Það er mikilvægara vandamál í þessu, fólk er að deyja. Brasilía er það land sem drepur flesta samkynhneigða.“

Richarlyson lék tvo landsleiki fyrir Brasílíu árið 2008 og átti sín bestu ár á ferlinum frá 2005-2010 þegar hann var lykilmaður í sigursælu liði Sao Paulo. Vann hann til að mynda heimsmeistarakeppni félagsliða, þar sem liðið lagði Liverpool að velli, árið 2005 og brasilísku A-deildina þrjú ár í röð frá 2006 til 2008.

Hann er þar með fyrsti karlmaðurinn sem kemur út úr skápnum sem hefur leikið fyrir brasilíska A-landsliðið og leikið í efstu deild í Brasilíu.

Richarlyson telur að það að hann sé opinberlega kominn út úr skápnum muni því miður ekki breyta neinu.

„Ég er eðlileg manneskja með þarfir og þrár. Ég hef verið með karlmanni, ég hef verið með kvenmanni, en hvað með það? Hvað ætlið þið að gera í því? Hvað sem þið viljið.

Það verða fyrirsagnir um að Richarlyson hafi talað um það í hlaðvarpi að hann sé tvíkynhneigður. Frábært. Svo mun rigna inn fréttum en það sem er mikilvægast, sem er alltaf markmiðið, að ekkert mun breytast, sem snýr að vandamálinu sem fordómar í garð samkynhneigðra er.

Því miður er veröldin ekki reiðubúin að taka þessa umræðu og takast á við hana á eðlilegan hátt,“ sagði hann einnig í hlaðvarpsþættinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert