Þorlákur lætur af störfum í sumar

Þorlákur Árnason, fráfarandi yfirmaður knattspyrnumála hjá knattspyrnusambandi Hong Kong.
Þorlákur Árnason, fráfarandi yfirmaður knattspyrnumála hjá knattspyrnusambandi Hong Kong.

Þorlákur Árnason mun láta af störfum sínum sem yfirmaður knattspyrnumála hjá knattspyrnusambandi Hong Kong í sumar. Samningur hans við sambandið rennur þá út og Þorlákur snýr sér að öðru.

Þetta kom fram í útvarpsþætti Fótbolta.net á laugardaginn. Hann tók við starfinu í janúar árið 2019.

„Ég hef klárað öll þau verkefni sem ég tók að mér hérna. Það var að búa til fimm ára plan fyrir sambandið og gera allar þær breytingar sem sambandið vildi gera. Nú er ég að fylgja þeim eftir,“ sagði Þorlákur í þættinum.

Hann bætti því við að hann vildi helst halda áfram að starfa erlendis. „Alla þjálfara og leikmenn langar að vinna erlendis. Samningurinn minn er að renna út í lok júní og þá fer ég að gera eitthvað annað. Þetta hefur verið ótrúlega lærdómsríkt og gaman og það verður erfitt að fara þegar þetta klárast í júní.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert