Strengjabrúður í hættulegum leik

Toni Kroos í leik með félagsliði sínu, Real Madríd.
Toni Kroos í leik með félagsliði sínu, Real Madríd. AFP

Þýski landsliðsmaðurinn Toni Kroos segir að knattspyrnumenn séu lítið annað en strengjabrúður í hættulegum leik knattspyrnuyfirvalda sem hann telur ekki hafa heilsu leikmanna í fyrirrúmi.

Kroos og þýska landsliðið, sem og flest landslið, eru nýbúin að spila þrjá leiki á stuttum tíma enda þurfti að klára Þjóðadeild UEFA í landsleikjaglugganum. Gríðarlegt álag er á atvinnumönnum í knattspyrnu um þessar mundir, sér í lagi eftir kórónuveirufaraldurinn. Leikmenn víða um heim fengu stutt undirbúningstímabil og þá hefur það ekki tíðkast áður að spila þrjá landsleiki á stuttum tíma.

„Allar þessar nýju keppnir eru settar á fót til að mergsjúga leikmenn og græða eins mikla peninga og hægt er,“ sagði óánægður Kroos í viðtali við Bild í heimalandinu. „Við erum ekkert annað en strengjabrúður FIFA og UEFA.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert