Danir unnu riðilinn með stæl – lærisveinar Alfreðs töpuðu

Mathias Gidsel skoraði átta mörk fyrir Danmörku í kvöld.
Mathias Gidsel skoraði átta mörk fyrir Danmörku í kvöld. AFP/Andreas Hillergren

Keppni í milliriðlum á HM 2023 í handknattleik karla lauk í kvöld. Danmörk vann öruggan sigur á Egyptalandi og vann þar með milliriðil 4 og Noregur hafði betur gegn lærisveinum Alfreðs Gíslasonar í Þýskalandi og vann um leið milliriðil 3.

Með jafntefli eða sigri hefði Egyptaland unnið riðilinn en Danmörk var ekkert á þeim buxunum og komst sex mörkum yfir snemma leiks, 9:3.

Danir hertu enn tökin og náðu mest átta marka forystu í fyrri hálfleik, 15:7.

Egyptar löguðu aðeins stöðuna eftir það en Danir leiddu þó með fimm mörkum í hálfleik, 17:12.

Í síðari hálfleik var Danmörk áfram við stjórn, náði aftur mest átta marka forystu og hleypti Egyptalandi ekki nær sér en fimm mörkum.

Niðurstaðan að lokum sannfærandi fimm marka sigur, 30:25.

Markahæstir hjá Danmörku voru Simon Pytlick og Mathias Gidsel, báðir með átta mörk. Skammt undan var Mikkel Hansen með sex mörk.

Markahæstur hjá Egyptalandi var Mohab Abdelhak með sex mörk.

Norðmenn sterkari undir lokin

Í leik Noregs og Þýskalands voru Norðmenn með undirtökin stærstan hluta fyrri hálfleiks þó Þjóðverjar hafi aldrei verið langt undan.

Þýskaland jafnaði metin í 16:16 undir lok hálfleiksins en Noregur brást við með því að skora tvö síðustu mörk fyrri hálfleiks. Staðan því 18:16, Noregi í vil, í hálfleik.

Í síðari hálfleik unnu Þjóðverjar á og náðu forystunni í fyrsta sinn í leiknum í stöðunni 25:24.

Norðmenn svöruðu því með því að skora fjögur mörk í röð og sigldu að lokum tveggja marka sigri, 28:26, í höfn.

Markahæstur hjá Noregi var Göran Johannessen með fimm mörk.

Markahæstur í leiknum var hins vegar Juri Knorr með átta mörk fyrir Þýskaland.

Þar með er endanlega ljóst hvaða lið mætast í átta liða úrslitum HM 2023.

Átta liða úrslitin:

Frakkland – Þýskaland

Noregur – Spánn

Svíþjóð – Egyptaland

Danmörk – Ungverjaland

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert