Hver stýrir sóttvarnaaðgerðum á Íslandi?

Benedikt Guðmundsson ásamt Hannesi S. Jónssyni, formanni KKÍ.
Benedikt Guðmundsson ásamt Hannesi S. Jónssyni, formanni KKÍ. mbl.is/Hari

Hannes S. Jónsson formaður körfuknattleikssambands Íslands, KKÍ, er ósáttur með íslensk stjórnvöld en KKÍ sendi frá sér yfirlýsingu í gær þess efnis að öllu mótahaldi innan sambandsins væri frestað til og með 3. nóvember.

Í dag voru líkamsræktarstöðvar aftur opnaðar á höfuðborgarsvæðinu, með ströngum takmörkunum þó, en áfram er bannað að keppa og æfa íþróttir á höfuðborgarsvæðinu.

Hannes ritaði áhugaverðan pistil á Facebook-síðu sína í dag þar sem hann gagnrýnir íslensk stjórnvöld harðlega en formaðurinn gaf mbl.is leyfi til þess að birta hann.

Pistill Hannesar:

Frábært að líkamsræktarstöðvar mega opna , það gleður mig ! En samt má ekki stunda íþróttir í skipulögðu íþróttastarfi eða konan mín mæta í vinnuna sína á Englahár til að klippa og lita þá sem vilja komast í hársnyrtingu !!!

Ég veit mjög vel að við eigum í baráttu við heimsfaraldur og illvígan sjúkdóm og við verðum að standa saman í baráttunni ÖLL SEM EITT en því miður er samstaðan farin, það er sundrung !!!

Samstaðan í faraldrinum fyrstu mánuðina var til fyrirmyndar og yfirvöld stóðu sig vel. Staðan í dag er sundung og það er vegna óreiðu yfirvalda og stjórnsýslunnar. Engin veit hver raunverulega ræður í sóttvarnaraðgerðum landsins í baráttunnni við COVID hér á Íslandi í dag.

Þetta er allt svo furðurlegt og mig langar að skrifa svo langan pistil en ég hef bara ekki tíma í það því ég er að reyna að fá að vita hvað má og má ekki í íþróttum í dag. Staðan breytist hratt, samráðið er ekkert.

Fyrir mér lítur þetta þannig út að það er ekki borin virðing fyrir fjölmennstu fjöldahreyfingu landsins íþróttahreyfingunni. Sama hvað við biðjum um mikið samráð og erum tilbúinn að vinna með yfirvöldum allan sólarhringinnn þá erum við sett í síðasta sætið. Börnin og unglingarnir fá ekki að vera í sinni daglegu rútínu og fá eðlilega útrás og gleði við sína íþróttaiðkun, afreksíþróttafókið á bara að stoppa að æfa og það á bara að vera sjálfsagt...getur einhver bent mér á afreksíþróttafólk í heiminum sem er í æfingarbanni eins og afreksíþróttafólk á höfuðborgarsvæðinu.

Tökum upp samstöðuna frá því í vor og það ekki seinna en í dag , tökum upp samráðið aftur, tökum upp samtalið aftur VINNUM ÞETTA SAMAN, MEÐ SAMSTÖÐU OG SAMTALI KOMUMST VIÐ Í GEGNUM ÞETTA og þá náum við að sigra þessa helv...veiru. ÁFRAM ÍSLAND

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert