Frederik tryggði Valsmönnum stig í Árbæ

Frederek Schram ver víti í kvöld.
Frederek Schram ver víti í kvöld. mbl.is/Óttar

Fylkir og Valur skildu jöfn, 0:0, í Bestu deild karla í fótbolta á Fylkisvellinum í Árbænum í 2. umferðinni í kvöld. Stigið var það fyrsta sem Fylkir fær en Valur er með fjögur stig.

Fylkismenn byrjuðu af miklum krafti og reyndu nokkur skot á upphafsmínútunum, án þess að trufla Frederik Schram í marki Vals mikið.

Gylfi Þór Sigurðsson fékk fyrsta færi Vals á 16. mínútu er hann náði góðu skoti í teignum en Ólafur Kristófer Helgason í marki Fylkis varði vel frá honum.

Gylfi Þór Sigurðsson með boltann í kvöld.
Gylfi Þór Sigurðsson með boltann í kvöld. mbl.is/Óttar

Ellefu mínútum síðar slapp Halldór Jón Sigurður Þórðarson inn fyrir vörn Vals en skaut framhjá markinu úr dauðafæri. Skömmu síðar átti Gylfi annað hættulegt skot sem Ólafur varði.

Fylkismenn fengu svo dauðafæri á 43. mínútu þegar Halldór Jón Sigurður lék á Gísla Laxdal Unnarsson í teignum og Gísli braut á honum og víti dæmt. Varnarmaðurinn Orri Sveinn Stefánsson steig á punktinn en Frederik Schram varði fá honum. Var staðan í hálfleik því markalaus.

Liðunum gekk illa að skapa sér opin færi í seinni hálfleik. Guðmundur Tyrfingsson átti gott skot á 58. mínútu en Frederik varði glæsilega. Tryggvi Hrafn Haraldsson fékk svo gott færi á 76. mínútu er hann slapp í gegn en Ólafur varði vel frá honum og varð markalaust jafntefli niðurstaðan.

Fylkir 0:0 Valur opna loka
90. mín. Theodór Ingi Óskarsson (Fylkir) á skot framhjá Skemmtilegt skot á lofti eftir hornið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert