Ronaldo í ítarlegu viðtali: Hefur ekki verið létt

Portúgalska knattspyrnustjarnan Cristiano Ronaldo var í ítarlegu viðtali sem birt var á Símanum sport. Ronaldo fór um víðan völl í 20 mínútna viðtali, þar sem hann ræddi m.a. hve erfitt yfirstandandi tímabil hefur verið hjá Manchester United, en liðið er í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar. 

„Þetta hefur ekki verið létt. Við skiptum um stjóra og Carrick kom á eftir Ole og síðan nýi stjórinn. Það er erfitt að skipta oft um stjóra en við vitum að það mun taka tíma að framkvæma það sem nýi stjórinn vill. Við vitum að við erum ekki á sem bestum stað en með því að leggja mikið á okkur getum við náð markmiðunum okkar,“ sagði Ronaldo m.a.

Hann var hryggur er Ole Gunnar Solskjær var rekinn en þeir léku á sínum tíma saman hjá United. „Ég spilaði með honum og hann er frábær manneskja. Það voru allir sorgmæddir þegar hann fór en svona er lífið og fótboltinn. Rangnick hefur breytt miklu en hann þarf tíma. Við höfum bætt okkur á einhverjum sviðum síðan hann kom en við þurfum meiri tíma.“

Hann segist hafa snúið aftur til Manchester United þar sem hann elskar félagið. „Ég kom aftur til Manchester því ég elska þetta félag, það hafði ekkert með peninga að gera. Ég trúi því að við höfum möguleika á að ná langt og vinna titla en við þurfum að finna bestu leiðina til að ná markmiðum okkar,“ sagði Ronaldo.

Viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan en mbl.is færir ykkur efni úr enska boltanum í samvinnu við Símann sport.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert