Unnu 25. meistaratitilinn á markatölu

Hinn íslenskættaði Jon Dahl Tomasson stýrði Malmö til meistaratitilsins annað …
Hinn íslenskættaði Jon Dahl Tomasson stýrði Malmö til meistaratitilsins annað árið í röð. AFP

Malmö varð í gær sænskur meistari í knattspyrnu karla annað árið í röð og í 25. skipti samtals en sigurinn ekki verið naumari en í ár því félagið hreppti meistaratitilinn á markatölu.

Fyrir lokaumferðina í gær var Malmö með tveggja stiga forskot á AIK og með mun betri markatölu, þannig að ljóst var að jafntefli gegn þriðja neðsta liðinu, Halmstad, á heimavelli, myndi duga til að tryggja liðinu titilinn. Halmstad þurfti hins vegar á sigri á sigri að halda til að forðast að lenda í umspili um áframhaldandi sæti í deildinni.

Leikurinn endaði 0:0 og Malmö gat því fagnað öðrum titlinum í röð eftir að Jon Dahl Tomasson, hinn íslenskættaði fyrrverandi landsliðsfyrirliði Dana, tók við stjórn liðsins í ársbyrjun 2020.

Jon Dahl tengist Skagamönnum 

Tomasson vill lítið tala um tengsl sín við Ísland

Malmö hefur unnið meistaratitilinn oftast allra sænskra liða en Gautaborg og Norrköping koma næst með 13 sigra hvort félag.

Halmstad þarf að fara í umspilið eftir þetta jafntefli og mætir þar Helsingborg, liði Böðvars Böðvarssonar, í tveimur leikjum 11. og 14. desember en Helsingborg endaði í þriðja sæti B-deildarinnar.

AIK vann sinn leik, 4:2 gegn Sirius, og tryggði sér með því annað sætið, með 59 stig eins og Malmö og tveimur stigum á undan Djurgården sem fékk bronsið. Aron Bjarnason kom inn á sem varamaður hjá Sirius, sem endaði í 11. sæti, og náði því að spila tvo síðustu leiki liðsins á tímabilinu eftir að hafa annars misst af því öllu vegna meiðsla.

Elfsborg tryggði sér fjórða sætið með 3:2 útisigri á Örebro. Sveinn Aron Guðjohnsen kom inn á sem varamaður hjá Elfsborg undir lokin en Hákon Rafn Valdimarsson var varamarkvörður liðsins.

Adam Ingi Benediktsson varði mark Gautaborgar í öðrum leiknum í röð þegar liðið vann Norrköping 2:1 á útivelli. Hann spilaði því tvo síðustu leiki liðsins í deildinni. Ari Freyr Skúlason lék ekki með Norrköping vegna meiðsla en Jóhannes Kristinn Bjarnason var varamaður hjá liðinu. Norrköping endaði í 7. sæti og Gautaborg í 8. sæti.

Häcken tapaði 0:1 fyrir Djurgården og endaði í 12. sæti. Valgeir Lunddal Friðriksson var varamaður hjá Häcken en Óskar Tór Sverrisson var ekki í hópnum.

Það kom í hlut Örebro og Östersund að falla en liðin urðu langneðst í deildinni. Í stað þeirra eru Värnamo og Sundsvall komin upp í úrvalsdeildina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert