fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Ína lýsir stöðunni í Ameríku – „Þetta var alveg ótrúlegt ástand“

Tobba Marinósdóttir
Laugardaginn 24. október 2020 18:30

Aðsend mynd

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ína Valgerður býr í Bandaríkj- unum ásamt fjölskyldu sinni. Takmarkanir þar eru mun meiri en hérlendis en skólar hafa loks verið opnaðir að hluta til aftur. Enn er margt lokað og aðeins má kaupa eina klósettpappírs- pakkningu í einu.

Ína Valgerður Pétursdóttir söngkona fluttist til Bandaríkjanna fyrir þremur árum þegar eiginmaður hennar Þórarinn Árni Bjarnason hóf sérnám í lyflæknisfræði og stundar nú áframhaldandi sérnám í hjartalækningum.

Bandaríkin hafa síðastliðið ár verið land innri átaka en þrátt fyrir það segir Ína að fjölskyldunni líði þar vel. „Ekkert land í heiminum er fullkomið og USA er engin undantekning. Hins vegar höfum við aðlagast vel hér og liðið vel frá fyrsta degi. Við erum búin að eignast vini frá öllum heimshornum og það að flytja til útlanda stækkar svo sannarlega sjóndeildarhringinn hjá manni. En auð vitað erum við að búa hér á sögulegum tímum þetta árið. COVID, Black Lives Matter og Trump er forseti, svo þetta ár er búið að vera svolítið eins og að vera fastur í einhverri bíómynd.“

Fjölskyldan býr í hjarta miðvestursins, Iowa City í Iowa, en hefur varið sumrunum á Íslandi þar til veiran lét til sín taka. „Ég kom síðast heim til Íslands sumarið 2019. Við höfum farið heim á hverju ári og að sama skapi er alltaf gestagangur hjá okkur, en að sjálfsögðu er 2020 undanskilið. Við höfum ekki farið heim til Íslands og ekki fengið gesti á árinu. Nema systur mannsins míns sem er búsett og í námi í Washington DC. Hún kom og var hjá okkur í allt vor og sumar sem hjálpaði mikið við að létta undir á heimilinu. Það var ómetanlegt. Ég og dætur mínar ætluðum að eyða sumrinu á Íslandi með fólkinu okkar en auðvitað varð ekkert úr því, vonandi komumst við til Íslands næsta sumar,“ segir Ína og vísar til þess hversu erfitt til lengdar það er að vera fastur inni á heimilinu.

Langaði að smúla eiginmanninn

„Það er klárlega erfitt að vera svona mikið fastur heima. Ég hef samt reynt að vera alltaf jákvæð og bara láta þetta allt ganga sem best og reyna að hafa hlutina þannig að við séum öll hamingjusöm saman. Það er í raun það eina sem hægt er að gera í stöðunni. Fyrst var ég líka auðvitað áhyggjufull yfir manninum mínum í vinnunni. Það var skortur á hlífðarbúnaði í byrjun fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Mig langaði því helst að smúla hann með garðslöngunni og sótthreinsa hann úti í bílskúrnum þegar hann kom heim af vöktum, en ég gerði það nú auðvitað ekki. En við þurftum að útskýra fyrir stelpunum að þær mættu ekki hlaupa í fangið á honum eins og þær gera vanalega þegar hann kemur heim, engin pabbaknús fyrr en hann væri búinn að fara í sturtu.“

Auka ísskápur og frystir

Ína segist hafa lengi vel aðeins hafa farið út af heimilinu til að versla á tveggja vikna fresti. „Við þurftum að fá okkur auka ísskáp og frysti til þess að koma öllum matnum fyrir. Einu búðirnar sem ég fór í voru búðirnar sem settu strax grímuskyldu eins og Costco, Trader Joe’s og Target. Það var líka alveg ótrúlega skrítið að fara í búð þessa fyrstu mánuði í ástandinu. Klósettpappír var uppseldur í öllum búðum í margar vikur, einu sinni kom ég í búðina og þá var ekki til neinn kjúklingur, næst kom ég og þá var engin mjólk eða egg. Hillurnar stóðu tómar í stórum stíl, þetta var alveg ótrúlegt ástand.“

Hún segist hafa verið mjög hrædd til að byrja með en með tímanum læri fólk að lifa með ástandinu.

„Núna erum við aðeins slakari, en samt mjög varkár. Við gerum engan óþarfa eins og að fara út að borða. Ég er búin að fara einu sinni í klippingu á þessu ári og hef ekki stigið fæti inn á snyrtistofu allt árið. Líkamsræktarstöðin okkar var nýlega opnuð aftur síðan henni var lokað um miðjan mars en það eru enn þá miklar takmarkanir.“ Grímuskylda er í líkamsræktinni og fólk þarf að panta tíma vegna fjöldatakmarkana.

„Við erum komin með róðravél í kjallarann þar sem kaldir mánuðir eru fram undan og lítil útivera svo það verður heilsuræktin okkar næstu mánuði. En það allra, allra erfiðasta við þetta allt er að vera svona langt frá fjölskyldunum okkar og vinum á Íslandi í svona langan tíma. Ég þakka fyrir Facetime og Zoom sem hefur gert þetta bærilegra,“ segir Ína og vísar í samskiptaforritin vinsælu.

Lok, lok og læs

Skólarnir voru opnaðir aftur í lok september eftir að hafa verið lokaðir síðan 13. mars. „Auður Embla, eldri dóttir okkar, var að byrja í 1. bekk núna. Fyrstu þrjár vikurnar í september var hún í heimaskóla (fjarnámi) en núna er búið að færa það yfir í „Hybrid model“ svokallað. Hún fer þá í skólann tvo til þrjá daga í viku og er hina dagana í heimaskóla. Fólk gat valið á milli þess að vera 100% í heimaskóla eða þetta „Hybrid model“. Það er enn þá engin frístund í boði fyrir börnin,“ segir Ína en það gerir það nánast vonlaust fyrir fólk með börn að geta stundað 100% vinnu.

Yngri stúlka hjónanna, Vigdís María, er í leikskóla en lenti í sóttkví strax í byrjun skólaársins í haust þar sem kennarinn hennar greindist með veiruna. „Hún var búin að vera í kennslustofunni með kennaranum alla vikuna á undan. Við fórum því í 14 daga sóttkví, Vigdís var COVID-testuð í lok sóttkvíar og var ekki með COVID. Ekkert af börnunum á deildinni smitaðist sem er nú ansi merkilegt. Það er grímuskylda fyrir starfsmenn á leikskólanum svo kennarinn var með grímu.“

Einn pakki á mann

Veitingastaðir eru opnir, en margir enn þá bara með heim sendingu eða bjóða upp á að fólk sæki mat. „Það er grímuskylda alls staðar enn þá. Og það eru takmarkanir í búðum, maður má til dæmis bara kaupa eina pakkningu af klósettpappír og þessar helstu nauðsynjavörur eru skammtaðar. Rólóvellir eru opnir aftur, en þeir eru merktir „at your own risk“. Það er ekkert sótthreinsað.“

Ína segir þetta þó vera með töluverðum tilslökunum miðað við hvernig ástandið var til að byrja með. „Föstudaginn 13. mars kláraði ég vinnu og sótti stelpurnar í skóla og leikskóla. Helgina eftir var öllu skellt í lás. Skólum, búðum, líkamsrækt, veitingastöðum, hárgreiðslu- og snyrtistofum o.s.frv. Það eina sem var opið voru apótek og matvörubúðir. Rólóvellir voru innsiglaðir og lokaðir og allar almennings sundlaugar voru lokaðar í allt sumar. Og það að vera með orkumikil börn, en allt er lokað og ekkert hægt að fara eða gera, getur verið krefjandi. Inn í þetta allt kom svo „Black Lives Matter“ með mótmælum og útgöngubanni hér í bænum okkar. Það voru líka mjög stressandi vikur. Við heyrðum mótmælin hingað heim til okkar, mótmælendur fóru út á hraðbrautina I80, eina umferðarmestu hraðbraut Bandaríkjanna, og þurfti því að loka henni nokkur kvöld. Við upplifðum okkur samt aldrei í neinni hættu.“

Börnin með grímu

Stelpunum gengur vel að ganga með grímuna og kvarta ekki að sögn Ínu. „Við þurfum alltaf að vera með grímu hvert sem við förum, sem eru nú ekki margir staðir þar sem við förum lítið. Auður Embla sex ára þarf að vera með grímuna allan daginn í skólanum, nema auðvitað þegar það er hádegismatur. Þær eru byrjaðar aftur í fimleikum og þurfa að vera með grímu þar, ég dáist alveg að þeim, þeim finnst þetta ekkert mál.“

Ína segir að lífið hafi á köflum verið erfitt, stúlkurnar saknað vina sinna og ömmu og afa. „Það að útskýra fyrir fjögurra og sex ára stelpum að við séum ekki að fara í Disney World um páskana að borða kvöldmat með uppáhalds prinsessunum þeirra út af því að það er vírus, er ekki auðvelt, trúðu mér. Eða að við getum ekki hitt ömmur og afa fyrr en vírusinn er farinn, það er enn þá erfiðara. Sjálfsagðir hlutir eins og að fara á róló, hvernig eiga börn að skilja þetta? Að vera bara alltaf heima með mömmu, alla daga. Þær eru samt bara svo duglegar, þær systur er góðar vinkonur svo það var ómetanlegt fyrir þær að hafa hvor aðra í tæplega sex mánuði sem við vorum heima

Sumrin hér eru mjög heit svo uppblásna sundlaugin var í notkun alla daga sumarsins frá morgni til kvölds.“

Það reynist eldri stúlkunni erfiðara að geta ekki hitt vini sína þar sem hún er farin að mynda sterk vinasambönd í gegnum skólann. „Við ákváðum samt fljótlega í þessu ástandi að halda áfram að hitta okkar nánustu vini og þar eiga systur góða vini, Möggu og Mása, og hafa þau átt margar góðar stundir í þessu COVIDbrjálæði. Við erum lítið samfélag af Íslendingum hér í Iowa City sem hefur orðið ein stór fjölskylda og erum við dugleg að hittast og eiga saman góðar stundir.“ Þrátt fyrir ástandið ætla hjónin ekki að flýta sér heim. Þórarinn er ánægður í vinnunni og á eftir þrjú ár í sérnámi í hjartalækningum.

Það er ekki hægt að kveðja Ínu án þess að spyrja út í yfirvofandi forsetakosningar. „Við fylgjumst ágætlega vel með pólitíkinni hér, þá sérstaklega maðurinn minn. Maður finnur fyrir smá stressi og spennu í fólki hér yfir kosningunum. Verandi í háskólabæ eru flestir hér frjálslyndir og kjósa Demókrata en hins vegar þarf ekki að fara langt út fyrir bæinn, í sveitina, þar sem víða glittir í Trump-fána.

Það er spennandi að búa hér þegar það eru forsetakosningar, maður skynjar hvað þetta skiptir fólk miklu máli. Við munum svo auðvitað hafa kosningavöku að íslenskum sið,“ segir Ína sem þrátt fyrir miklar takmarkanir sér það bjarta í lífinu og bendir á að grímunotkun eins og annað venjist. Nú reyni á innri styrk og að vera fyrirmynd fyrir börnin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ástþór hvetur fólk til að passa sig á þessu: Ævintýrið getur fljótt breyst í martröð

Ástþór hvetur fólk til að passa sig á þessu: Ævintýrið getur fljótt breyst í martröð
Fréttir
Í gær

Lögregla fann 29 dauða nautgripi á bæ á Norðurlandi Vestra

Lögregla fann 29 dauða nautgripi á bæ á Norðurlandi Vestra
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“