Dansmaraþon fyrir alls kyns líkama

Juulius Vaiksoo, dansnemi við LHÍ, er skipuleggjandi dansmaraþons til styrktar …
Juulius Vaiksoo, dansnemi við LHÍ, er skipuleggjandi dansmaraþons til styrktar List Án Landamæra. Ljósmynd/Mia Tohver

Dansmaraþon til styrktar List án landamæra fer fram á sviði í Borgarleikhúsinu í kvöld og er hluti af dagskrá Dansdaga. Juulius Vaiksoo, skipuleggjandi og hugmyndasmiður viðburðarins, segir innblásturinn að verkefninu hafa verið aukna umræðu um þátttöku fatlaðra einstaklinga í listaheiminum. 

List án landamæra vinnur að menningarlegu jafnrétti fyrir fatlað listafólk, en félagið stendur fyrir hátíð ár hvert þar sem list fatlaðra er í fyrirrúmi á fjölbreyttri dagskrá sem sýnir öll listform. Viðburðurinn er ætlaður alls kyns líkömum til að koma og dansa fyrir jöfnum réttindum, en sviðið er aðgengilegt fyrir hjólastóla.

Dansmaraþonið hefst klukkan 18 í Borgarleikhúsinu í kvöld.
Dansmaraþonið hefst klukkan 18 í Borgarleikhúsinu í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sækir innblástur í eistneskan viðburð

Juulius er sjálfur nemi á samtímadansbraut í Listaháskóla Íslands, en hugmyndin að viðburðinum sækir innblástur í svipaðan viðburð í Eistlandi, heimalandi Juuliusar. 

„Það hefur verið mikil umræða um fatlað fólk og fatlanir í listaheiminum og ég þekkti til viðburðar í Eistlandi sem heitir Sõltumatu Tantsu Lava, sem heldur svona dansmaraþon með áherslu á hreyfihömlun, og mér þótti það fullkomið form til að koma með hingað til Íslands,“ segir Juulius en hann vonar einnig að viðburðurinn sameini eistneska og íslenska dansmenningu. 

Íslenski viðburðurinn talsvert styttri

Juulius segist hafa skipulagt viðburðinn á mjög svipaðan hátt og leitað ráða hjá skipuleggjendum Sõltumatu Tantsu LavaHann segir íslenska viðburðinn hins vegar talsvert styttri, eða um fjórar klukkustundir, en sá eistneski er um tólf klukkustundir.

Reglur maraþonsins kveða á um að dansarar séu ávallt á hreyfingu, jafnvel þegar þeir fá sér að drekka eða borða. Allir dansarar fá 10 mínútna hlé, en skipuleggjendur ítreka við þátttakendur að ofreyna sig ekki. Tilgangur dansmaraþonsins sé jú ánægja og hreysti.

Ástæða styttingarinnar að sögn Juuliusar er að viðburðurinn þurfti að passa inn í dagskrá Dansdaga, sem hófust á mánudaginn og lýkur á morgun.

Dansmaraþonið hefst klukkan 18 í Borgarleikhúsinu í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert