„Höfum fullt af leikjum til að koma okkur úr þessari stöðu“ 

Brynjar Björn Gunnarsson á hliðarlínunni í dag.
Brynjar Björn Gunnarsson á hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

HK tapaði fyrir KA í jöfnum leik á Akureyri í dag en liðin voru að spila í Pepsi Max-deildinni í fótbolta. KA skoraði mark í hvorum hálfleik á meðan HK komst hvergi en liðin fengu ekki mörg færi í leiknum. Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK, kom í stutt spjall eftir leik og var greinilega nokkuð vonsvikinn enda var HK ekki síðri aðilinn í leiknum. 

„Ég er vissulega svekktur með tapið. Ef við lítum á leikinn og kryfjum hann þá fá KA-menn ekki mikið af færum en þeir skora úr þeim færum þar sem þeir ná skotum á markið. Á meðan fáum við ágætis möguleika en náum ekki að nýta þá. KA-menn voru bara betri en við í þessu í dag.“ 

Þið voruð búnir að vinna ykkur vel inn í leikinn í fyrri hálfleik eftir öfluga byrjun KA. Voruð líklegri en KA til að skora þegar þeir setja á ykkur mark upp úr nánast engu. Þú varst ekki sáttur við það. 

„Þetta breytti heilmiklu. KA gat bakkað aðeins og legið með þéttari vörn aftan við boltann. Þetta mark var ekki nógu gott af okkar hálfu og við þurfum að skoða það. Þetta er dauður bolti úti á miðjum velli og bara einn bolti í gegn. Það er fulleinfalt.“ 

Nú er staða ykkar í deildinni ekki nógu góð. Þið sitjið í fallsæti og það eru þrjú stig í næstu lið. Hvernig sérðu framhaldið fyrir þér? 

„Við höfum fullt af leikjum til að koma okkur úr þessari stöðu. Við höfum verið fínir í síðustu leikjum og þess vegna ansi svekkjandi að fá ekkert úr þessum. Við vorum ekki langt frá því að skora í dag en það vantaði alltaf eitthvað smá upp á. Þetta var jafn leikur og leiðinlegt að tapa honum en mér líst ekkert illa á framhaldið.“ 

Næsti leikur er á heimavelli gegn toppliði Vals. Það verður skemmtilegt verkefni. 

„Já, það er gaman að spila við lið sem er á toppi deildarinnar. Við förum yfir þennan leik á morgun og undirbúum svo Valsleikinn. Við erum með stóran hóp og verðum klárir í þann leik í næstu viku,“ sagði Brynjar Björn að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert