Samningurinn samræmi bæði vinnuskil og vinnutíma

Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis.
Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Markmið Sameykis og Félags flugmálastarfsmanna með ný undirrituðum langtímakjarasamningum milli Sameykis, FFR, Isavia og Samtaka atvinnulífsins er meðal annars að samræma bæði vinnuskil og vinnutíma og verður það gert með ákveðinni útfærslu sem nær til beggja félaga. 

„Þetta hefur verið með aðeins ólíkum hætti en við erum að reyna að draga inn í heildarmyndina leið sem við höfum trú á að gagnist öllum,“ segir Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, inntur eftir frekari útskýringum á því hvaða atriði voru samræmd milli félaganna, en Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins, sagði í samtali við mbl.is í gær að það hefði náðst árangur við að samræma ákveðin atriði milli félagana. 

FFR, Sam­eyki, Isa­via og Sam­tök at­vinnu­lífs­ins und­ir­rituðu í gærkvöldi lang­tíma­samn­ing sem bygg­ir á stöðug­leika­samn­ingn­um. FFR og Sam­eyki höfðu boðað verk­fallsaðgerðir á Kefla­vík­ur­flug­velli sem áttu að hefjast síðar í vik­unni en þeim hef­ur nú verið af­lýst.

„Alltaf þannig að maður er aldrei alveg ánægður“

„Það er alltaf þannig þegar maður er að klára kjarasamninga þá auðvitað er maður að stíga lokaskrefið vegna þess að maður hefur trú á því að það sé búið að ná árangri, þó svo að auðvitað sé þetta alltaf þannig að maður er aldrei alveg ánægður, en nægilega til þess að skrifa undir,“ svara Þórarinn spurður hvort hann gangi sáttur frá samningaborði ríkissáttasemjara. 

Aðspurður kveðst Þórarinn þó ekki geta veitt frekari upplýsingar um innihald samningsins og helstu ágreiningsefni fyrr en samningarnir hafa verið kynntir félagsmönnum. Segir hann áformað að undirbúa kynningarefni fyrir félagsmenn í dag og kynna þeim svo efni þeirra á föstudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert