Var aldrei hornspyrna

Matthías Vilhjálmsson í baráttunni í kvöld.
Matthías Vilhjálmsson í baráttunni í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Matthías Vilhjálmsson, fyrirliði FH, var allt annað en sáttur eftir 1:1-jafntefli á heimavelli gegn Stjörnunni í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld. Stjarnan jafnaði þremur mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma með marki eftir horn, sem Matthías var mjög ósáttur við.

„Ég er mjög ósáttur við að þeir hafi fengið hornspyrnuna til að byrja með. Þetta var aldrei horn. Boltinn fellur niður í teignum og þeir eru fyrstir á hann og skora. Þetta var mjög svekkjandi,“ sagði Matthías og hélt áfram.

„Mér fannst þetta var mjög jafn leikur í fyrri hálfleik og svo byrjum við mjög sterkt í seinni. Undir lokin fara þeir svo að sækja á fleiri mönnum. Þeir gáfu þá meiri svæði og það vantaði hársbreidd upp á að klára færin. Ég átti eitt skot undir lokin sem var nálægt því að fara inn og svo áttum við skot í stöng. Þess vegna er ég ógeðslega svekktur með að þeir hafi fengið þessa hornspyrnu og skora upp úr henni.“

Sóknarmaðurinn segir góðar blikur á lofti hjá FH eftir að Eiður Smári Guðjohnsen tók við liðinu og Sigurvin Ólafsson varð aðstoðarþjálfari en FH hefur gert 1:1-jafntefli í báðum deildarleikjum liðsins eftir að Eiður tók við.

„Við erum að þróa eitthvað gott. Það tekur tíma að vinna í þeirra leikstíl og þeirra hugmyndafræði en ég er rosalega ánægður með hvernig þeir hafa komið inn í þetta og hvernig við höfum brugðist við. Við hefðum getað unnið í dag og það var súrt að gera það ekki.

Þeir hafa snúið miðjunni og við erum með tvær áttur í staðinn fyrir tvær sexur og reyna að fá fleiri hlaup aftur fyrir. Svo reyna þeir að vinna í andlega þættinum og reyna að fá okkur til að fatta að við erum með fullt af gæðum en við verðum að sýna þau,“ sagði hann.

Steven Lennon skoraði mark FH í kvöld og var markið það fyrsta sem hann gerir frá því í 1. umferðinni. „Lennie hefur verið einn besti leikmaður Íslandsmótsins síðustu tíu ára og það er mjög gott fyrir okkur að fá hann í gang. Þótt hann hafi ekki skorað eins mikið og hann er vanur hefur hann oft verið öflugur fyrir liðið,“ sagði Matthías.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert