Saka og Rashford geta tekið víti

Bukayo Saka, Raheem Sterling og Marcus Rashford á æfingu í …
Bukayo Saka, Raheem Sterling og Marcus Rashford á æfingu í Katar. AFP/Nicolas Tucat

Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðsins í knattspyrnu, kveðst ekki hika við að láta Marcus Rashford og Bukayo Saka taka vítaspyrnur ef með þarf þegar England mætir Senegal í sextán liða úrslitum heimsmeistaramótsins í Katar í kvöld.

Rashford og Saka brást báðum bogalistin af vítapunktinum í úrslitaleik Evrópumótsins 2020 gegn Ítölum á Wembley þegar úrslitin réðust í vítaspyrnukeppni og Ítalar stóðu uppi sem Evrópumeistarar.

„Það yrði ekkert vandamál. Marcus er með eina bestu vítanýtingu í heimsfótboltanum og Bukayo er farinn að taka vítaspyrnur reglulega fyrir sitt félagslið. Þeir eru báðir tilbúnir í allt svoleiðis," sagði Southgate.

El Hadji Diouf, fyrrverandi sóknarmaður Senegal og Liverpool, fullyrti í viðtali að enska liðið væri sigurvisst og þegar farið að velta fyrir sér mótherjum sínum í átta liða úrslitunum. Southgate sagði að það væri fjarri sanni.

„Allir vita að við erum að fara að mæta Afríkumeisturunum. Undir stjórn Aliou Cissé hafa þeir verið á mikilli sigurbraut, hafa sýnt mikinn stöðugleika, og eru komnir með hugarfar sigurvegarans. Þeir eru gríðarlega stoltir og eru stór fótboltaþjóð. Við höfum gert leikmönnum okkar grein fyrir því og Senegalarnir eru með miklar tengingar við ensku úrvalsdeildina. Þetta er ekki lið sem kemur á óvart," sagði Southgate á fréttamannafundi í gær.

Leikur Englands og Senegals hefst klukkan 19 og sigurliðið mætir annaðhvort Frakklandi og Póllandi sem mætast klukkan 15 í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert