Aspadeilu á Arnarnesi lauk með sýknu

Hér má sjá Arnarnes úr fjarska.
Hér má sjá Arnarnes úr fjarska. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Fyrrverandi sjónvarpsþula þarf ekki að fella 7-12 metra há tré, þar á meðal aspir, í garði sínum líkt og nágrannar hennar á Arnarnesi í Garðabæ höfðu krafist í dómsmáli sem þau höfðuðu á hendur henni. Að sögn þulunnar, Ragnheiðar Elínar Clausen, þjóna trén m.a. því hlutverki að skýla stofuglugga hennar, sem snýr beint að garði nágrannanna. 

Ragnheiður var sýknuð af kröfum nágranna sinna í Héraðsdómi Reykjaness í dag og þeir dæmdir til að greiða henni 800.000 krónur í málskostnað.

Nágrannarnir kröfðust þess aðallega að Ragnheiður yrði dæmd til að klippa allan trjágróður, hvaða nöfnum sem hann nefnist, á lóð hennar innan við 4 metra frá lóðamörkum. Til vara kröfðust nágrannarnir þess að Ragnheiður yrði dæmd til að klippa allan trjágróður, hvaða nöfnum sem hann nefnist, á lóð sinni við lóðamörk fasteignar þeirra.

Nágrannarnir vildu meina að tré Ragnheiðar skyggðu á útsýni nágrannanna yfir Esjuna, Snæfellsjökul og Kópavogskirkju sem þeir töldu víst að fylgdi með fasteigninni sem þau festu kaup á árið 2017. Ragnheiður hefur átt sína fasteign frá árinu 1998.

Gert að fjarlægja gróður

Trén voru að líkindum gróðursett áður en byggingarreglugerðir sem bönnuðu svo há tré nálægt lóðarmörkum, nema með samþykki eigenda beggja lóða, tóku gildi. Í dómnum er Ragnheiður sögð náttúruunnandi sem „nyti þess að hafa gömul og glæsileg tré í garði sínum“.

Þrátt fyrir sýknu er Ragnheiði gert að klippa eða fjarlægja þann trjágróður sem vaxið hefur yfir lóðamörkin ellegar greiða 30.000 króna sekt daglega til nágrannanna. Ragnheiður fær þrjá mánuði til að verða við því. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert