Hinn 38 ára gamli Navas er sá eini sem var með spænska landsliðinu þegar liðið varð síðast Evrópumeistari árið 2012. Hann varð líka í heimsmeistaraliðinu árið 2010.
Venjan er að fyrirliðar liðanna mæti á síðasta blaðamannafundinn fyrir leik en spænsku fyrirliðinn Álvaro Morata sendi Navas í tilefni af því að þetta verður hans síðasti leikur.
„Morata sagði við mig að þetta væri rétta stundin fyrir mig til að tala af því að þetta verður síðasti leikurinn minn,“ sagði Jesús Navas.
„Að vera hérna enn eftir öll þessi ár sýnir að ég hef gert hlutina vel. Það væri stórkostlegt fyrir allt liðið að vinna titilinn og við eigum það skilið,“ sagði Navas.
„Þrátt fyrir að vera orðinn 38 ára þá er ég samt spenntur fyrir öllu. Að hjálpa landsliðinu, að hjálpa þjóðinni minni. Ég hef samt tekið þessa ákvörðun og stend við hana,“ sagði Navas.
Navas lék sinn fyrsta landsleik árið 2009 og hefur spilað 56 landsleiki. Þrír af þeim hafa verið á EM í Þýskalandi.
Hann var í byrjunarliðinu í lokaleik riðilsins á móti Albaníu, kom inn á sem varamaður á móti Georgíu og var í byrjunarliðinu í undanúrslitaleiknum á móti Frökkum þegar hægri bakvörðurinn Dani Carvajal tók út leikbann.
Navas hefur spilað flesta af þessum landsleikjum á hægri vængnum en hann hefur dottið neðar á völlinn á seinni hluta ferilsins.