Sjö marka sigur Hauka í Vestmannaeyjum

Tjörvi Þorgeirsson sækir að Eyjamönnum í kvöld.
Tjörvi Þorgeirsson sækir að Eyjamönnum í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Haukar fóru illa með ÍBV þegar liðin áttust við í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í 13. umferð deildarinnar í Vestmannaeyjum í kvöld.

Björgvin Páll Gústavsson var magnaður í marki gestanna sem fljúga með stigin tvö til Reykjavíkur mjög sáttir. Lokatölur 19:26.

Leikurinn var jafn í upphafi og skiptust liðin á að skora mörk og skapa sér dauðafæri, varnirnar virtust vera mikið opnar og þá fundu Eyjamenn oftar en ekki góð færi á milli öflugra varnarmanna gestanna. Mörg færin fóru þó forgörðum og var það mest markverði gestanna, Björgvini Páli, að kenna.

Staðan var jöfn 8:8 eftir 17 mínútur en eftir það var í raun bara eitt lið á vellinum, Haukar skoruðu fimm síðustu mörk fyrri hálfleiks og leiddu 8:13. Sóknarleikur Hauka var þó ekki aðalástæðan fyrir því, vörn þeirra og markvarsla voru í hæsta gæðaflokki og fá lið sem ráða við svona öflugan varnarleik.

Leikur Eyjamanna var ekki mikið betri í seinni hálfleik en gestirnir léku sér að sóknarmönnum heimamanna, Björgvin Páll hirti síðan upp molana og átti einnig margar frábærar vörslur. Eyjamenn reyndu allt hvað þeir gátu til að minnka muninn en Haukar voru einfaldlega alltof sterkir í kvöld.

Haukar eru það lið sem hefur fengið á sig fæst mörk í deildinni og sást vel af hverju í kvöld, frábær varnarleikur, markvarsla og agaður sóknarleikur skiluðu öruggum sigri.

ÍBV 19:26 Haukar opna loka
60. mín. Dagur Arnarsson (ÍBV) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert