Umfjöllun og viðtöl: Tindastóll - KR 115-63 | Stólarnir niðurlægðu fallna KR-inga

Arnar Skúli Atlason skrifar
IR_Tindastoll (14)
VÍSIR/BÁRA

Tindastóll rótburstaði KR-inga þegar liðin mættust í Subway-deild karla á Sauðárkrók í kvöld. Lokatölur 115-63 þar sem fallnir KR-ingar áttu aldrei möguleika.

Í fyrsta leikhluta í Síkinu í kvöld var jafnræði milli liðanna og liðin skiptust á körfum. Það virkaði eins og KR-ingar ætluðu að selja sig dýrt á móti liði Tindastóls sem er í harðri baráttu um 5. sætið. 

Stólarnir stigu aðeins á bensíngjöfina og komu muninum upp í sex stig strax á fyrstu fimm mínútum leiksins. Pétur Rúnar Birgisson var heitur á þessum tíma og leiddi lið Tindastóls en Antonio Williams var sá sem dró vagnin fyrir gestina úr Vesturbænum.

Þessi munur hélst út fjórðunginn og leikurinn virtist ætla að vera jafn og spennandi en heimamenn leiddu 27-20 að fyrsta leikhluta loknum.

Stólarnir byrjuðu annan leikhluta af krafti og komu muninum upp í tíu stig og þá tók Helgi Magnússon þjálfari KR leikhlé með sex mínútur eftir af leikhlutanum. 

Tindastóll náði 20-0 spretti og KR skoraði eina körfu það sem lifði leikhlutans. Stólarnir kveiktu á vörninni hjá sér og voru svakalega áræðnir í leikhlutanum, vörnin small saman og KR þurfti að taka erfið skot eða tapaði boltanum. Tindastóll gekk á lagið og skoraði hverja körfuna á fætur annari og að öðrum leikhluta loknum leiddu Tindastóll 55-27 og leikurinn nánast búinn.

Seinni hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri, liðin skiptust á körfum en Tindastóll alltaf skrefinu á undan og í rauninni spiluðu þeir leikinn þannig að KR átti aldrei möguleika og að koma tilbaka. Tindastóll jók bara muninn út leikinn sem varð aldrei sepnnandi í seinni hálfleik. 

Antonio Williams í KR náði að láta henda sér út úr húsi um miðjan fjórða leikhluta en leiknum lauk með sigri Tindastóls 115-63.

Atkvæðamestur í liði Tindastóls var Taiwo Badmus með 31 stig, Keyshawn Woods skoraði 24 stig. Hjá KR skoraði Alanen 15 stig, Antonio 13 stig og Þorsteinn Finnbogason 11 stig.

Af hverju vann Tindastóll?

Miklu betri á öllum sviðum leiksins, vörn og sókn.

Hverjir stóðu upp úr?

Taiwo Badmus var góður í kvöld, lék lausum hala sóknarlega. Aðrir í liði Tindastóls voru góðir líka og allir að leggja í púkkið. Verður gaman að sjá þá í úrslitakeppninni.

Hvað gekk illa?

Allt sem KR gerði var erfitt því miður, fullt af hæfileikum hjá þeirra ungu mönnum sem eru að fá leiktíma. Gott að fara niður á þessum tímapunkti.

Hvað gerist næst?

Deildarkeppnin klárast í næstu umferð með því að Tindastóll fer í heimsókn á Hlíðarenda og taka á móti Íslandsmeisturum Vals en KR-ingar fá strákana í Stjörnunni í heimsókn.

Pavel: Mikið vinnuframlag í kvöld

Pavel er að gera góða hluti á Króknum.Vísir/Hulda Margrét

Hvað skóp sigurinn í kvöld?

„Heilt yfir erum við betra lið en KR, við erum hérna á heimavelli og við lögðum áherslu á í gegnum vikuna, því við höfum séð önnur lið góð lið tapa fyrir þeim, og við ætluðum ekki að leyfa því að gerast. Við vildum setja tóninn og hörkuna strax frá byrjun og við gerðum það mjög vel.“

Hvað voru þið að gera sértakt í kvöld til að stopppa KR?

„Í kvöld var það raunverulega ekkert sérstakt. Það var bara mikið vinnuframlag í kvöld, það voru engar sérstakar pælingar eða hugmyndir sem við vorum að framkvæma. Þetta var bara í raun og veru að vinna þessa líkamlegu baráttu þar sem við erum með töluverða yfirburði gegn þeim. Það þurfti ekki meira í kvöld en að hnykkja aðeins vöðvana.“

Valur í næsta leik, ertu sáttur með liðið?

„Ég er sáttur og Valur er stórleikur fyrir okkur. Ég held að þessi leikur skipti ekki neinu máli fyrir stöðuna í deildina ef ég skil þetta rétt og þetta er mjög mikilvægur leikur rétt eins og þessi að senda út ákveðinn skilaboð að við erum hér. Það er tækifæri fyrir sunnan á móti liðinu sem er efst og við að senda strá smá hræðslufræjum í næsta andstæðing í úrslitakeppni.“

Helgi Már: Við bara gáfumst upp

Helgi Már í leik kvöldsins.Vísir/Vilhelm

Helgi Már Magnússon þjálfari KR var svekktur með frammistöðu sinna manna í kvöld.

„Við bara brotnuðum og það er auðvelt að vera lítill þegar illa gengur og við bara hættum, já við bara gáfumst upp.“

Veturinn hefur verið erfiður fyrir KR-inga og Helgi viðurkenndi að það væri byrjað að spá í næsta tímabili þegar liðið leikur í næstefstu deild.

„Já það er alltaf verið að hugsa um næsta ár bæði þegar gengur vel og illa. Við þurfum að halda vel á spilunum í sumar og búa til sterkt lið.“

Verður þú áfram?

„Það kemur bara í ljós ég er ekki með það á hreinu.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira