Milljarður í að lokka ferðamenn til Lundúna

Borgarstjórinn Sadiq Khan ætlar að fá ferðamenn til Lundúna nú …
Borgarstjórinn Sadiq Khan ætlar að fá ferðamenn til Lundúna nú þegar fer að draga úr sóttvarnaaðgerðum í Bretlandi. AFP

Sadiq Khan, borgarstjóri Lundúna, kynnti í dag herferð sem á laða ferðamenn til höfuðborgar Bretlands nú þegar ríkisstjórn landsins stefnir að afléttingu sóttvarnaaðgerða í skrefum.

Herferðin, sem ber heitið „Let‘s Do London“, mun kosta borgarsjóð Lundúna sex milljónir sterlingspunda sem er jafnvirði ríflega eins milljarða íslenskra króna. Vonir eru um að herferðin hvetji innlenda ferðamenn til að nýta sér gistingu, mæta á menningarviðburði, stunda næturlífið og sækja í verslanir borgarinnar.

1.300 milljarðar

Khan, sem var endurkjörinn í embætti borgarstjóra á laugardag, sagði við kynningu herferðarinnar tilgang hennar vera að styðja við þær greinar sem urðu fyrir efnahagsþrengingum vegna sóttvarnaaðgerða til að sporna við útbreiðslu kórónuveirunnar. „Þetta snýst um að koma þeim skilaboðum til Lundúnabúa og fólks um allt land að höfuðborg okkar stendur tilbúin til að skemmta, hvetja og heilla á ný,“ sagði hann.

Árið 2020 eyddu erlendir ferðamenn mun minna í Lundúnum en árið á undan og nam samdrátturinn 7,4 milljörðum punda eða jafnvirði 1.300 milljarða íslenskra króna. Samdráttur í eyðslu innlendra ferðamanna var 3,5 milljarðar punda eða 614 milljarða króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert