Vísbendingar um að ungu fólki líði ekki vel

mbl.is/Kristinn Magnússon

Veitt verður 600 milljóna króna viðbótarframlag til geðheilbrigðismála fyrir börn og ungmenni til að mæta aukinni þörf vegna Covid-19. Stutt verður við sex samstarfsverkefni félags- og barnamálaráðherra, heilbrigðisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra, að því er kemur fram í tilkynningu.

„Þessi faraldur hefur reynst mörgum erfiður. Það skiptir máli að við styðjum vel við andlegt heilbrigði fólks, einmitt á þessum tímum. Við höfum verið að auka fjármuni í þetta jafnt og þétt á kjörtímabilinu, þetta hefur verið ein af velsældaráherslum okkar,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að loknum fundi í Ráðherrabústaðnum.

„Nú gefum við enn meira í og erum sérstaklega að horfa til unga fólksins af því að við sjáum vísbendingar um að því líði ekki nógu vel,“ bætti hún við.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, að loknum ráðherrafundinum í morgun. mbl.is/Arnþór

Stofnuð verða geðheilbrigðisteymi barna á landsvísu, efld geðheilbrigðisþjónusta í framhaldsskólum og háskólum, efld endurhæfing vegna langvarandi eftirkasta Covid, Sjúkratryggingum falið að semja við aðila sem veita þverfaglega geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og ungmenni og stutt við sveitarfélög og frjáls félagasamtök til eflingar á þjónustu fyrir börn og aðra hópa með alvarlegar geðraskanir.

Veitt verður 200 milljóna króna viðbótarframlag til aðgerða í aðgerðaráætlun félagsmálaráðuneytisins um viðspyrnu gegn neikvæðum áhrifum Covid-19 gagnvart börnum, eldri borgurum, öryrkjum, fólki af erlendum uppruna og öðrum félagslega viðkvæmum hópum.

Um er að ræða stuðningsaðgerðir sem m.a. vinna gegn heimilisofbeldi, styðja við bætta upplýsingafærni eldra fólks,heimilislausa, ungmenni sem hvorki eru þátttakendur á vinnumarkaði né í námi og aðgerðir sem bæta stöðu fólks sem býr við þroskaskerðingu og einhverfu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert