Snýst um að dekka mennina og láta ekki plata sig

Sindri Kristinn Ólafsson markvörður Keflavíkur ver glæsilega frá Kwame Quee.
Sindri Kristinn Ólafsson markvörður Keflavíkur ver glæsilega frá Kwame Quee. Ljósmynd/Víkurfréttir/Jóhann Páll

Eysteinn Húni Hauksson, annar þjálfara Keflavíkur, sagði grunnatriði í varnarleik hafa klikkað þegar liðið tapaði 1:2 gegn Víkingi úr Reykjavík í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á heimavelli í kvöld.

„Það sem stendur upp úr hjá mér er að við höfðum góða stjórn á leiknum í fyrri hálfleik. Hann spilaðist nokkurn veginn eins og við vildum, þeir voru meira með boltann. Við héldum okkur við það. Þeir voru ekki að skapa sér mörg færi, þeir áttu einhver tvö langskot ef ég man rétt og við skorum.

Svo fáum við mjög gott færi í stöðunni 1:0 sem við nýtum ekki og svo setja þeir tvö mörk á okkur og við virtumst ekki hafa það sem til þurfti til þess að koma okkur almennilega aftur inn í leikinn. Við áttum nokkrar sóknir þarna í lokin en það var of seint í rassinn gripið,“ sagði Eysteinn Húni í samtali við mbl.is eftir leik.

Spurður hvort jöfnunarmarkið á 58. mínútu hafi ekki verið blaut tuska í andlit Keflvíkinga sagði hann:

„Jú, en auðvitað snýst þetta bara um það að dekka mennina sína og láta ekki plata sig. Það er það sem gerist í mörkunum, menn eru plataðir og svo vantar aðeins upp á grimmdina í teignum og það er bara þannig. Við þurfum bara að læra af þessu og gera þetta betur.“

Eysteinn Húni Hauksson, annar þjálfara Keflavíkur.
Eysteinn Húni Hauksson, annar þjálfara Keflavíkur.

Örskömmu fyrir jöfnunarmarkið hafði Víkingur sett tvo fljóta vængmenn inn á og annar þeirra, Kwame Quee, lagði upp markið með því að leika á varnarmann Keflavíkur og gefa þvert fyrir markið þar sem Nikolaj Hansen skoraði. Í sigurmarki Víkings var einnig leikið á varnarmann Keflavíkur, það gerði Helgi Guðjónsson áður en hann skoraði.

Eysteinn Húni sagði Keflvíkinga síður en svo af baki dottna þrátt fyrir tvö töp í röð í deildinni.

„Við græðum ekki neitt á því að vera eitthvað að svekkja okkur. Við erum bara eins góðir og við erum í leikjunum og við þurfum bara að vinna á æfingasvæðinu, standa saman, þora hlutunum aðeins meira og það er oft þannig að þegar við þorum hlutunum að þá ganga þeir mjög oft upp,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert