Strax greindur með veiruna í Þýskalandi

Matteo Guendouzi í góðu færi í leik Frakka og Slóvaka …
Matteo Guendouzi í góðu færi í leik Frakka og Slóvaka á mánudaginn. AFP

Franski knattspyrnumaðurinn Matteo Guendouzi sem á dögunum var lánaður frá Arsenal til þýska liðsins Herthu frá Berlín hefur greinst með kórónuveiruna.

Guendouzi er nýkominn aftur til Berlínar eftir að hafa leikið tvo leiki með franska 21-árs landsliðinu gegn Liechtenstein og Slóvakíu í Strasbourg, þar sem hann var fyrirliði liðsins. Hann greindist með smit við komuna til Þýskalands og er kominn í tíu daga einangrun.

Guendouzi er sagður einkennalaus og líðan hans sé góð.

Samkvæmt forráðamönnum Herthu hafði Guendouzi ekki hitt neinn leikmanna liðsins eftir komuna til landsins og því hefur smitið ekki áhrif á liðið. Til stóð að kynna hann formlega til leiks hjá félaginu í dag og hann átti að spila sinn fyrsta leik með liðinu gegn Stuttgart á laugardaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert