Bankasýslan Ríkisins sendi frá sér tilkynningu í kvöld vegna ummæla Guðmundar Björgvins Helgasonar ríkisendurskoðanda á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í dag.

Bankasýslan segir að ríkisendurskoðandi fari með rangt mál þegar hann heldur því fram að stofnunin hafi skort fullnægjandi yfirsýn yfir stöðu tilboðsbókar í Íslandsbankasölunni í mars þegar ákvörðun var tekin um leiðbeinandi lokaverð.

„Bankasýsla ríkisins hefur ítrekað bent Ríkisendurskoðun á að starfsmenn stofnunarinnar, fyrir milligöngu umsjónaraðila, hafi náið fylgst með þróun tilboðsbókar allt frá upphafi útboðsins til enda. Stöðu bókarinnar hafi reglulega verið varpað á skjá í höfuðstöðvum Íslandsbanka fram á kvöld þess dags er útboðið fór fram.“

Hún lýsir því að á þeim fimm klukkustundum sem útboðið stóð yfir var tilboðum aflað fyrir rúmlega 150 milljarða króna, sem samsvari 500 milljónum á mínútu að jafnaði.

Enginn vafi að ákvörðunin byggðist á fullnægjandi upplýsingum

Guðmundur rökstuddi mál sitt um að Bankasýsluna hafi skort yfirsýn m.a. með að benda á bréf Bankasýslunnar til fjármálaráðherra kl. 21:40 um kvöldið. Þar hafi ráðherra verið tjáð að tilboð höfðu borist frá 150-200 aðilum upp á hundrað milljarða króna en hið rétta hafi verið tilboð frá 209 aðilum upp á 148,4 milljarða króna.

„Það er ekki hægt að reyna einu sinni að byrja á því að rökstyðja það að heildaryfirsýn hafi verið fullnægjandi þegar [eftirspurn sem gefin er upp] nánast skekkir um söluandvirðið. Rúmlega hundrað milljarðar? Nei þeir voru 148,4 milljarðar. Bankinn var seldur á rúmlega 52 milljarða,“ sagði Guðmundur.

Bankasýslan segir að ákvarðanir um leiðbeinandi verð og rökstutt mat til ráðherra um lokaverð og magn, sem honum var sent kl. 21:40 að kvöldi 22. mars, byggðu á upplýsingum sem þá lágu fyrir um eftirspurn fjárfesta. Þær upplýsingar hafi vissulega átt eftir að taka breytingum.

„Heildarmyndin var hins vegar skýr og yfirsýn umsjónaraðila (Citigroup Global Markets Europe AG, J.P. Morgan SE og fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka), Bankasýslu ríkisins og fjármálaráðgjafa stofnunarinnar (STJ Advisors Group Limited) góð.“

Endanleg staða tilboðsbókar og flokkun fjárfesta hafi verið send Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra kl. 23:18. „Á þeim grunni var ákvörðun ráðherra tekin og staðfest bréflega við Bankasýslu ríkisins kl. 23:27.“

„Samkvæmt þessu er engum vafa undirorpið að ákvarðanir um verð í söluferlinu, sem allar voru teknar að fengnum tillögum umsjónaraðila útboðsins og með hliðsjón af ráðgjöf fjármálaráðgjafa Bankasýslu ríkisins, byggðust á fullnægjandi upplýsingum,“ segir Bankasýslan að lokum.

Athugasemdir Bankasýslunnar í heild sinni:

„Vegna þess sem fram kom af hálfu ríkisendurskoðanda á opnum fundi Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í dag skal eftirfarandi komið á framfæri:

Það er rangt sem ríkisendurskoðandi heldur fram að Bankasýslu ríkisins hafi skort fullnægjandi yfirsýn yfir stöðu tilboðsbókar þegar ákvörðun var tekin um leiðbeinandi verð og er rökstutt mat var sent ráðherra að kvöldi 22. mars 2022.

Bankasýsla ríkisins hefur ítrekað bent Ríkisendurskoðun á að starfsmenn stofnunarinnar, fyrir milligöngu umsjónaraðila, hafi náið fylgst með þróun tilboðsbókar allt frá upphafi útboðsins til enda. Stöðu bókarinnar hafi reglulega verið varpað á skjá í höfuðstöðvum Íslandsbanka fram á kvöld þess dags er útboðið fór fram.

Á þeim fimm klukkustundum sem útboðið stóð yfir var tilboða aflað fyrir rúmlega 150 milljarða króna. Það samsvarar um 30 milljörðum króna á klukkustund eða 500 milljónum króna á hverri mínútu að jafnaði. Ákvarðanir um leiðbeinandi verð og rökstutt mat til ráðherra um lokaverð og magn, sem honum var sent kl. 21:40 að kvöldi 22. mars 2022, byggðu á upplýsingum sem þá lágu fyrir um eftirspurn fjárfesta. Upplýsingarnar áttu eftir að taka breytingum. Heildarmyndin var hins vegar skýr og yfirsýn umsjónaraðila (Citigroup Global Markets Europe AG, J.P. Morgan SE og fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka), Bankasýslu ríkisins og fjármálaráðgjafa stofnunarinnar (STJ Advisors Group Limited) góð. Endanleg staða tilboðsbókar og flokkun fjárfesta var síðan send ráðherra kl. 23:18. Á þeim grunni var ákvörðun ráðherra tekin og staðfest bréflega við Bankasýslu ríkisins kl. 23:27.

Samkvæmt þessu er engum vafa undirorpið að ákvarðanir um verð í söluferlinu, sem allar voru teknar að fengnum tillögum umsjónaraðila útboðsins og með hliðsjón af ráðgjöf fjármálaráðgjafa Bankasýslu ríkisins, byggðust á fullnægjandi upplýsingum.“