Jarðvarmi gæti nýst við kornrækt

Kornrækt í Eyjafirði.
Kornrækt í Eyjafirði. Ljósmynd/Benjamín Baldursson

Eftir tvo áratugi gæti byggmarkaðurinn á Íslandi numið 35.000 til 45.000 tonnum og hveitimarkaður um 80.000 tonnum og er mögulegt að framleiða stóran hluta innanlands. 

Samanburðurinn bendir til þess að kostnaður við kornrækt hér á landi sé sambærilegur við nágrannalönd.

Mikið, frjósamt og ódýrt ræktarland, ásamt lágum raforku- og heitavatnskostnaði og lágs kostnað við varnarefni eru meðal helstu styrkleika íslenskrar kornræktar í samanburði við erlenda. Þá gæti nýting jarðvarma verið bæði raunhæfur og hagkvæmur kostur. 

Þetta kemur fram í nýútgefinni skýrslu um eflingu kornræktar á Íslandi sem verður kynnt á opnum fundi klukkan 11 í dag. Í skýrslunni er lögð fram aðgerðaáætlun í 30 liðum þar sem m.a. eru gerðar tillögur um sérstakan stuðning við kornrækt, bæði við framleiðslu og fjárfestingar í nauðsynlegum innviðum. 

Markmið verkefnisins var einnig að kanna fýsileika kornsamlags og skilgreina þarfir á lágmarksbirgðum kornvöru í landinu. Skýrslan er unnin af starfshópi Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) en hún var skrifuð að beiðni matvælaráðuneytisins. Helgi Eyleifur Þorvaldsson, Egill Gautason og Hrannar Smári Hilmarsson skipuðu starfshóp LbhÍ.

Ríkið greiði 500 milljónir í kornræktarsjóð

Í aðgerðaáætluninni er m.a. lagt til að ríkið greiði árlega 500 milljónir króna í kornræktarsjóð sem myndi annars vegar greiða framleiðslustuðning á hvert framleitt kíló af korni og hins vegar greiða fjárfestingarstuðning sem á að styrkja þurrkstöðvar, geymslur, flutningabúnað og þreskivélar á hagkvæmustu kornræktarsvæðum.

„Kornsamlag er fyrirtæki sem tekur við korni frá bændum og selur það áfram til kaupenda. Fýsileiki þess að stofna kornsamlag var kannaður með því að athuga vilja stærstu kaupenda á korni í landinu til að kaupa íslenskt korn af slíku fyrirtæki. Nær allir stórir kornkaupendur á Íslandi skrifuðu undir viljayfirlýsingu þess efnis. Til þess að raunhæft sé að nota íslenskt korn í fóðurog matvælaframleiðslu er nauðsynlegt að milliliður, eitt eða fleiri kornsamlög, sé til staðar milli bænda og kaupenda,“ segir í skýrslunni.

Mikilvægt að kára uppbyggingu Jarðræktarmiðstöðvar

Þá þarf að tryggja innlendar kornkynbætur og rannsóknir sem þeim tengjast með fjármögnun til lengri tíma. Er kostnaður við kynbótastarf á byggi, hveiti og höfrum metinn um 120 milljónir króna árlega. Tekið er fram í skýrslunni að mikilvægt sé að klára uppbyggingu Jarðræktarmiðstöðvar LbhÍ til að sinna kynbótum, rannsóknum, þróun og kennslu í kornrækt.

Einnig er talin þörf á skýru ræktunarleiðbeiningum fyrir kornrækt við íslenskar aðstæður. Í skýrslunni er lagt til að LbhÍ útbúi slíkar leiðbeiningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert