Sóttu harkalega að orkuinnviðum

Slökkviliðismenn í Ívanó-Frankívsk-héraðinu berjast við logana í nótt en Rússar …
Slökkviliðismenn í Ívanó-Frankívsk-héraðinu berjast við logana í nótt en Rússar beindu skeytum sínum að orkuinnviðum þriggja héraða. Ljósmynd/Almannavarnir Úkraínu/Telegram

Rússar réðust í nótt á orkuinnviði á þremur svæðum í Vestur-Úkraínu eftir því sem greint er frá í úkraínskum fjöl- og samfélagsmiðlum. Voru það héruðin Dníprópetrovsk, Ívanó-Frankívsk og Lvív sem urðu fyrir flugskeytaárásum þegar rússneski innrásarherinn skaut 34 flugskeytum að skotmörkum sínum. Létust tveir í árásunum en allt að tíu bera benjar eftir.

Að sögn The Kyiv Independent, úkraínsks vefmiðils, sem birtir efni á ensku, skutu úkraínskir hermenn 21 flugskeytanna niður áður en þau höfðu skotmörk sín sem voru orkuinnviðir héraðanna sem fyrr greinir.

„Búnaður varð fyrir tjóni og í einu skotmarkanna fékk verkfræðingur heilahristing,“ hefur netmiðillinn eftir German Galusjenkó, orkumálaráðherra Úkraínu, sem tjáði sig um málið á samfélagsmiðlinum Telegram þar sem hann sló þó þann varnagla að enn stæði mat á tjóni næturinnar yfir.

Lagðir inn vegna líkamstjóns

Stærsta einkarekna orkufyrirtæki landsins, DTEK, hefur tilkynnt um töluverðar skemmdir á fjórum varmaorkuverum sínum en fyrirtækið gefur þó ekkert upp um staðsetningu veranna löskuðu.

Voru þrettán af flugskeytunum 34 skotin niður í Dníprópetrovsk-héraði þar sem orkuver í nágrenni Dnípró og Krívíi Ríh skemmdust, en frá því greinir héraðsstjórinn Serhí Lysak sem enn fremur skrifar á Telegram að tæplega fertugur karlmaður hafi hlotið benjar í árásinni og verið lagður inn. Ástand hans sé nú stöðugt. Það sama gildi um annan, 45 ára, sem einnig liggur á sjúkrahúsi eftir árás næturinnar.

Þá hæfðu hljóðfrá flugskeyti Rússa tvö orkuver í nágrenni Stryi og Tsjervonóhrad í Lvív þar sem eldsvoði varð af og tjón. Þetta skrifar Maksím Kósitskí héraðsstjóri um á samfélagsmiðlum. Ekki greinir hann frá meiðslum og segir auk þess að byggingar í nágrenninu hafi sloppið vel.

Rússar herða árásir sínar

Enn eitt orkuverið skemmdist svo í Ívanó-Frankívsk en þar kom upp eldur sem slökkvilið knúði von bráðar til kyrrðar. Er þetta haft eftir þriðja héraðsstjóranum, Svitlönu Onítjuk. Í hennar ranni meiddist enginn.

Eiga skotmörkin það sammerkt að vera í vesturhluta landsins, mörg hundruð kílómetra frá víglínum Rússa og Úkraínumanna eins og þær liggja nú.

Rússar hafa upp á síðkastið hert flugskeyta- og drónaárásir sínar á nágrannaríkið stríðshrjáða og einkum beint skeytum sínum að nauðsynlegustu innviðum. Hefur fjöldi orkuvera þar orðið illa úti, svo sem Trypillia-verið, höfuðorkuver Kænugarðs auk héraðanna Sjítómír og Tsjerkasí.

Árásir í mars drógu úr framleiðslugetu DTEK-orkuframleiðandans um heil 80 prósent.

Eftir því sem Volodímír Selenskí Úkraínuforseti greinir frá þarfnast þegnar hans 25 Patriot-loftvarnakerfa til að verja landið loftárásum Rússa.

The Kyiv Independent

Al Jazeera

The National

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert