22 í einangrun á Djúpavogi

Djúpivogur.
Djúpivogur. Ljósmynd/Andrés Skúlason

Kórónuveirufaraldurinn hefur verið að sækja í sig veðrið á Djúpavogi en þar eru nú minnst 22 í einangrun vegna veirunnar. Þetta staðfestir Óðinn Gunnar Óðinsson, skrifstofustjóri hjá Múlaþingi, sem var nýkominn af fundi með aðgerðarstjórn Austurlands þegar mbl.is náði tali af honum.

Ræddu stöðuna á faraldrinum á Austurlandi

Spurður segir hann efni fundarins hafa verið, eins og svo oft áður, stöðuna á faraldrinum á Austurlandi.

„Yfirleitt er það Covid sem er til umræðu á þessum fundum og einhverjar aðgerðir sem menn telja rétt að grípa til eða mögulegar leiðbeiningar til skólastjóra.“

Eftir því sem mbl.is kemst næst greindist fyrsta smitið frá upphafi faraldursins á Djúpavogi 3. janúar og var sá smitaði starfsmaður á leikskólanum Bjarkartúni.

Þegar upp komst um smitið var leikskólanum lokað, að því er Guðrún Sig­ríður Sig­urðardótt­ir, leik­skóla­stjóri á Bjarka­túni, greindi frá í samtali við mbl.is á fimmtudag.

Geta vonandi opnað leikskólann aftur á morgun

Í kjölfarið var ákveðið að ráðast í víðtæka skimun í bæjarfélaginu en fram að þessu hefur tvisvar verið skimað fyrir veirunni á heilsugæslunni á Djúpavogi, fyrst á laugardag og svo aftur í gær. Að sögn Óðins verður svo aftur skimað á fimmtudag.

Inntur eftir því segir hann niðurstöður úr sýnatökum gærdagsins ekki enn liggja fyrir. Fjöldi þeirra einstaklinga sem eru í einangrun vegna veirunnar í bæjarfélaginu sé þó 22, sem er fjölgun um tíu frá því í gær.

Þá segir hann leikskólann á Bjarkartúni enn vera lokaðan en að reiknað sé með því að hann verði opnaður aftur á morgun, reynist niðurstöður úr sýnatökum gærdagsins hagstæðar.

Hyggist þið grípa til sérstakra aðgerða til að hefta frekari útbreiðslu veirunnar á Djúpavogi?

„Nei, það var ekki ákveðið í dag. Við þurfum að sjá hvernig þetta þróast. Það eru hópsmit að koma upp víða eins og t.d. á Eskifirði. Það er samt alltaf til umræðu með skólastjórnendum. Fram að þessu hefur virkað best að loka grunn- og leikskólum en það hefur ekki verið ákveðið að gera neitt slíkt ennþá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert