Þunguð kona fær bætur vegna uppsagnar

Landsréttur kvað upp úrskurð í málinu í dag.
Landsréttur kvað upp úrskurð í málinu í dag. mbl.is/Hanna

Nordic Luxury ehf. hefur verið gert að greiða konu bætur vegna ólögmætrar uppsagnar, en konunni var sagt upp eftir að hafa upplýst stjórnarformann fyrirtækisins að hún væri þunguð.

Þetta kemur fram í dómi Landsréttar sem staðfesti að konan ætti rétt til launa, til töku fæðingarorlofs ásamt uppsagnarfresti.

Tveir mánuðir í starfi

Konan var ráðin til starfa þann 8. apríl 2019 án þess að gerður væri við hana skriflegur ráðningarsamningur. Henni var svo sagt upp störfum rúmum tveimur mánuðum seinna, eða þann 27. júní 2019.

Hún hafði stuttu áður tilkynnt stjórnarformanni fyrirtækisins að hún væri þunguð, Landsréttur taldi það fela í sér fullnægjandi tilkynningu af hennar hálfu sem gerði það að verkum að vinnuveitanda hennar væri skylt að fara eftir lögum um fæðingar- og foreldraorlof.

Óheimilt að segja upp þungaðri konu

Samkvæmt þeim er vinnuveitanda óheimilt að segja upp þungaðri konu eða foreldri í fæðingarorlofi nema gildar ástæður séu fyrir hendi og skuli þá fylgja rökstuðningur.

Uppsögninni fylgdi enginn rökstuðningur og því ekki fallist á að aðrar ástæður gætu hafa verið fyrir uppsögninni, en lögmaður fyrirtækisins hafði svarað erindi lögmanns konunnar á þann veg að uppsögnin hafi verið til komin vegna þess að konan hafi ekki valdið starfi sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert