Bugaður af ástandinu

Maðurinn er bugaður.
Maðurinn er bugaður. Ljósmynd/Sigrún Harpa Wahlberg Davíðsdóttir

Á vistgötu í miðbæ Reykjavíkur, á milli Matarkjallarans og Café Rosenberg stendur bugaður maður, íklæddur sóttvarnargalla frá toppi til táar. Hann er greinilega undir miklu álagi, líkt og heilbrigðisstarfsfólk landsins í faraldrinum, en stendur í báðar lappirnar og það er einmitt það sem gjörningi Sigrúnar Wahlgren Davíðsdóttur hjúkrunarfræðingi er ætlað að varpa ljósi á. Listaverk Steinunnar Þórarinsdóttur er notað í gjörningnum með leyfi listamannsins.

Sigrún Harpa Wahlgren Davíðsdóttir, heilbrigðisstarfsmaður, sagði frá gjörningnum í færslu á Facebook:

„Kær vinur minn á Vesturgötunni er bugaður af ástandinu, ég heilsa gjarnan upp á hann á leið minni til vinnu og ég finn að hann skilur mig. Aldrei höfum við heilbrigðisstarfsfólk unnið eins mikið og síðustu mánuði. Heilsugæslan hefur borið hitann og þungann af sýnatökum og hin vinnan mín á 1700 leiðbeinir og hughreystir á þessum furðulegu og ruglingslegu tímum,“ skrifar Sigrún í færslu á Facebook.

Lýkur hún færslunni með þessum orðum:

„Þessi gjörningur var framkvæmdur til að minna á að við erum dauðþreytt en stöndum samt í báðar fætur og jafn stöðug og niðurlúti vinur minn á Vesturgötu.“


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert