Sætt að við skorum á 90. mínútu eins og alltaf

Hallgrímur Mar Steingrímsson í leik gegn Keflavík um daginn.
Hallgrímur Mar Steingrímsson í leik gegn Keflavík um daginn. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Hallgrímur Mar Steingrímsson leikmaður KA var ánægður eftir dramatískan 1:0-sigur á FH í Bestu deild karla í knattspyrnu á Dalvíkurvelli í kvöld.

„Það er bara mjög sætt að við skorum á 90. mínútu eins og alltaf. Við áttum þennan sigur fyllilega skilið, vorum búnir að eiga fjögur stangarskot. Þó þeir hafi verið meira með boltann vorum við að fá færin svo þetta var sanngjarnt.

Eins og Hallgrímur segir átti KA fjögur stangar eða sláarskot í leiknum og var í raun ótrúlegt að liðið hafi ekki skorað fyrr.

„Já þetta var ótrúlegt, sérstaklega þegar Dusan skallar og þeir bjarga á línu á einhvern ótrúlegan hátt. Það var virkilega kærkomið þegar Nökkvi setti hann.“

Hallgrímur er að stíga upp úr meiðslum og hefur spilað meira með hverjum leiknum. Í dag spilaði hann 85 mínútur.

„Ég reyndar bjóst við að ég væri að fara útaf þegar fyrsta skiptingin kom. Ég er bara merkilega góður og það kom mér á óvart að ég skildi ná svona mörgum mínútum.“

Styttist þá í að þú getir spilað heilan leik?

„Já. Vonandi í næsta leik.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert