Sport

Brady að eignast hlut í NFL-liði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tom Brady varð sjö sinnum NFL-meistari á ferlinum.
Tom Brady varð sjö sinnum NFL-meistari á ferlinum. getty/Phillip Faraone

Tom Brady er við það að eignast hlut í NFL-liðinu Las Vegas Raiders. Hann hætti að spila eftir síðasta tímabil eftir langan og farsælan feril.

Bandarískir fjölmiðlar greina frá því að Brady hafi fengið grænt ljós á að kaupa hlut í Raiders af aðaleiganda félagsins, Mark Davis.

Brady og Davis þekkjast vel og eiga saman hlut í WNBA-liðinu Las Vegas Aces. Brady kom inn í eigandahóp félagsins eftir að hann hætti að spila í NFL-deildinni í vetur.

Þrátt fyrir að Brady sé við það að eignast hlut í Raiders hefur það ekki áhrif á risasamninginn sem hann skrifaði undir við Fox Sports um að vera aðal sérfræðingur stöðvarinnar um NFL næstu tíu árin. Samningurinn hljómar upp á 375 milljónir dollara, eða 49,7 milljarða íslenskra króna, og er stærsti samningur sjónvarpsmanns í sögu NFL.

Raiders flutti til Las Vegas frá Oakland fyrir þremur árum. Á síðasta tímabili vann liðið sex af sautján leikjum sínum og komst ekki í úrslitakeppnina.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×