Þrettán marka sigur í fyrsta leik

Norska landsliðið fer vel af stað á EM.
Norska landsliðið fer vel af stað á EM. AFP

Þórir Hergeirsson og lærikonur hans í norska landsliðinu í handknattleik fara vel af stað á EM 2020 sem fram fer í Danmörku og hófst í dag.

Liðið vann öruggan sigur gegn Póllandi í fyrsta leik sínum í D-riðli keppninnar í Kolding í kvöld en leiknum lauk með 35:22-sigri Noregs.

Norska liðið leiddi með fjórum mörkum í hálfleik, 17:13, en Noregur skoraði fyrstu sex mörk síðari hálfleik og eftirleikurinn því auðveldur.

Nora Mörk og Henny Reistad voru markahæstar í norska liðinu með sex mörk hvor en Noregur er í efsta sæti D-riðils með 2 stig, líkt og Þýskaland.

Þá vann Svíþjóð 27:23-sigur gegn Tékklandi í B-riðli keppninnar í Herning. Staðan að loknum fyrri hálfleik var jöfn 13:13 en Svíar voru sterkari í síðari hálfleik.

Rússar og Svíar eru í efsta sæti B-riðils með 2 stig en Tékkar og Spánverjar eru án stiga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert