Nýsköpunarmiðstöð lögð niður

Nýsköpunarmiðstöðin heyrir nú sögunni til. Nýtt tæknisetur mun leysa hana …
Nýsköpunarmiðstöðin heyrir nú sögunni til. Nýtt tæknisetur mun leysa hana af með nýjum lögum sem samþykkt voru á Alþingi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alþingi samþykkti í dag að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð og tekur nýtt tæknisetur við verkefnum hennar, sem mun byggja á grunni Efnis-, líf- og orkutækni, Rannsóknastofu byggingariðnaðarins og hluta Frumkvöðlaseturs hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Tæknisetrið verður í formi einkahlutafélags og verður hlutafé þess í eigu ríkissjóðs, líkt og fram kemur í nýsamþykktum lögum um opinberan stuðning við nýsköpun.

Nokkurrar óánægju gætti meðal stjórnarandstöðuþingmanna, þar á meðal Loga Einarssonar formanns Samfylkingar og Smára McCarthy þingmanns Pírata, sem benti á að umsagnir um frumvarpið sem bárust til samráðsgáttar hafi verið í meirihluta neikvæðar. 

Nýsköpun muni leika stærra hlutverk

„Það er ótrúlega mikið búið að benda á að þetta er ótrúlega lélegt frumvarp, þetta er að valda skaða og þetta er búið að valda skaða. Við eigum ekki að styðja svona fásinnu,“ sagði Smári.

Svaraði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýsköpunar- og ferðamálaráðherra, því til að frumvarpið muni þvert á móti auka umsvif nýsköpunar hér á landi:

„Frumvarpið er liður í því að nýsköpun muni leika enn meira og stærra hlutverk í íslensku samfélagi. Ég er ánægð með að við séum hér að greiða atkvæði með þetta mál. Við lögðum af stað út í þetta verkefni því ég er þeirrar skoðunar að það sé skylda okkar stjórnmálamanna að vera stanslaust að rýna hvar hið opinbera getur sinnt verkefnum betur og hverju einfaldlega megi hætta, með áherslu á að forgangsraða til framtíðar.“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Smári McCarthy, þingmaður Pírata.
Smári McCarthy, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert