Markahæstur á erfiðum útivelli

Arnór Þór Gunnarsson lét mikið að sér kveða í Kiel.
Arnór Þór Gunnarsson lét mikið að sér kveða í Kiel. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnór Þór Gunnarsson landsliðsmaður í handknattleik var markahæsti leikmaður Bergischer þegar lið hans tapaði naumlega fyrir Kiel á útivelli í þýsku 1. deildinni í kvöld, 33:30.

Arnór skoraði átta mörk fyrir Bergischer í leiknum en lið hans er í áttunda sæti deildarinnar með 27 stig og er með í baráttunni um Evrópusæti.

Alexander Petersson skoraði eitt mark fyrir Flensburg  sem slapp fyrir horn gegn næstneðsta liðinu, Essen, á útivelli. Sigurmark Flensburg skoraði Hampus Wanne úr vítakasti níu sekúndum fyrir leikslok, 29:28.

Flensborg er þá með 40 stig á toppi deildarinnar en Kiel er með 39 stig og Rhein-Neckar Löwen 38 í þriðja sætinu. Löwen hefur hins vegar leikið fjórum leikjum meira en keppinautarnir.

Viggó Kristjánsson skoraði fjögur mörk fyrir Stuttgart sem tapaði fyrir einu af botnliðunum, Ludwigshafen, á útivelli, 28:24. Stuttgart hefur sigið niður í þrettánda sæti deildarinnar með 21 stig eftir að hafa verið ofarlega framan af tímabilinu.

Oddur Gretarsson skoraði eitt mark fyrir Balingen sem steinlá fyrir Leipzig á útivelli, 26:18. Balingen er með 15 stig í sextánda sæti af tuttugu liðum, tveimur stigum fyrir ofan fallsæti deildarinnar, en fjögur neðstu liðin falla í ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka