Veit lítið um andstæðinginn

Pétur Pétursson fær flugferð frá leikmönnum Vals.
Pétur Pétursson fær flugferð frá leikmönnum Vals. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Pétur Pétursson þjálfari kvennaliðs Vals í fótbolta viðurkenndi í samtali við Valtý Björn Valtýsson í Mín skoðun á Sport FM að hann viti lítið um finnska meistaraliðið HJK Hels­inki en Valur dróst gegn finnska liðinu í fyrstu um­ferð Meist­ara­deild­arinnar í dag. 

„Ég veit ekki neitt annað en að þær eru í fjórða sæti í deildinni. Ég er að vinna í því núna að fá leiki frá þeim og undirbúa okkur fyrir það hvernig þær spila,“ viðurkenndi Pétur.

Valsliðið hefur ekkert mátt æfa saman síðustu vikur vegna baráttunni við kórónuveiruna, en stór hluti leikmannahóps Valskvenna er nú í Svíþjóð að æfa og spila með landsliðinu. 

„Við höfum ekki verið að æfa fótbolta en hjá Val erum við með landsliðsstelpur sem eru núna í Svíþjóð að æfa og spila. Hinar hafa verið að æfa hlaupa og lyfta. Nú megum við byrja að æfa saman með bolta, það breytir töluvert miklu. Við höfum ekki verið að spila leiki en þetta er eitthvað sem við þurfum að lifa við. Við verðum að vera klár í leikinn.“

Hann hrósaði leikmönnum sínum fyrir þann aga sem þeir hafa sýnt í erfiðu ástandi. „Auðvitað getum við ekki bannað fólki að fara þangað sem það vill fara en við höfum óskað eftir því að leikmenn séu ekki að fara niður í bæ eða í veislur sem getur smitað. Stelpurnar hafa gert það mjög vel. Það þarf aga,“ sagði Pétur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert